141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

ríkisábyrgð á Íbúðalánasjóði.

[10:41]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rangt hjá hv. þingmanni að þegar sú sem hér stendur var félagsmálaráðherra 2007 hafi ekkert gerst í þessum málum. Eitt fyrsta verk mitt sem félagsmálaráðherra var að lækka lánshlutfallið úr 90% niður í 80% (Gripið fram í.) sem var alveg nauðsynlegt til að draga úr útlánum.

Eins og ég segi fórum við yfir vandann í gær. Yfir þetta verður sett ráðherranefnd sem mun vinna náið með Íbúðalánasjóði, Seðlabanka og fleiri aðilum sem munu fara í vandamálið, m.a. hvernig á að hafa framtíðarskipulag sjóðsins. Ég er alveg sammála hv. þingmanni um að það verður að gera. Við verðum þó líka að taka á þeim vanda sem er fyrir núna, sérstaklega uppgreiðsluáhættunni. Um þær fullnustuíbúðir sem eru að safnast upp hjá Íbúðalánasjóði, sem hætta er á að muni bætast í á næstunni, munum við (Forseti hringir.) stofna sérstakt félag sem á að taka á þeim vanda.

Það er sérstaklega þetta tvennt og að taka á áhættustýringu sjóðsins og skoða hvernig við viljum hafa húsnæðismálin og Íbúðalánasjóð til framtíðar. Ég er alveg sammála (Forseti hringir.) hv. þingmanni um það og þar þurfa fleiri að koma að málum.