141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

tollvernd landbúnaðarafurða í ESB-samningnum.

[10:54]
Horfa

atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Ég held að það sé ástæðulaust að við deilum í þingsal um mismunandi túlkun þeirra sem sátu þennan samninganefndarfund á því hvernig þetta bar nákvæmlega að. Ég held mig við þá skýrslu sem ég fékk frá fulltrúum mínum í nefndinni, að fulltrúar Bændasamtakanna sem áttu í hlut hefðu lýst því yfir á fundinum að þeir teldu sig þurfa að ráðgast við sitt bakland um framhald málsins.

Umboðið til samninganefndarinnar er að standa fast á hagsmunum landbúnaðarins og setja fram og halda til haga öllum þeim mikilvægu grundvallarhagsmunum sem þarf að standa vörð um. En þetta er dýnamískt ferli, það er að sjálfsögðu verið að vinna að mótun samningsafstöðunnar þannig að bréf frá forvera mínum til Bændasamtakanna er auðvitað ekki bindandi gjörningur hvað varðar framhald málsins, það liggur í hlutarins eðli. (Forseti hringir.) Samninganefndin ber sig jafnóðum saman við þá sem hún er að vinna fyrir og vinna með, fagráðuneyti og utanríkisráðuneyti, og síðan kemur samningsafstaðan sjálf fram og það er hún sem skiptir máli að lokum (Forseti hringir.) en ekki gömul sendibréf.