141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

aðild SVÞ að starfshópi um ESB-mál.

[10:56]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S):

Frú forseti. Í gær bárust þær fréttir að Samtök verslunar og þjónustu hefðu farið þess á leit við hæstv. utanríkisráðherra að samtökin fengju aðild að starfshóp um mótun samningsafstöðu okkar Íslendinga varðandi landbúnaðarmál. Mér finnst þetta í fyllsta máta eðlileg krafa. Ég held að í ljósi þróunar síðustu missira sérstaklega, varðandi þyngri umræðu um aukinn innflutning á landbúnaðarvörum, frelsi fyrir innflutta vöru hvort sem það er á sviði landbúnaðarvara eða á öðrum sviðum, sé mikilvægt að menn frá utanríkisráðuneytinu fari gaumgæfilega yfir þá beiðni Samtaka verslunar og þjónustu að fá aðild að þessum starfshópi. Mér finnst skipta miklu máli að í starfshópnum heyrist rödd kaupmanna og um leið neytenda til að þeim brýnu hagsmunamálum sem blasa við okkur Íslendingum verði sinnt, þ.e. að hafa aukið frelsi á innflutningi landbúnaðarvara sem og annarra vara.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann ætli að taka við umleitan Samtaka verslunar og þjónustu. Ég efast ekki um að hæstv. atvinnuvega- og nýsköpunarráðherra muni taka vel í þessa málaleitan og styðja hæstv. utanríkisráðherra eftir allar þær breytingar sem hafa orðið á Stjórnarráðinu því að nú er hann ekki eingöngu fulltrúi landbúnaðarmála og sjávarútvegsmála heldur á hann líka að gæta hagsmuna kaupmanna, neytenda og fleiri aðila í samfélaginu. Ég trúi því ekki að mótstaða verði úr því ráðuneyti. Ég spyrja því hæstv. utanríkisráðherra hvort hann muni ekki fara vel yfir þessa málaleitan Samtaka verslunar og þjónustu og taka fulltrúa þessa hóps, sem er hagsmunaaðili fyrir gríðarlega stóran hóp landsmanna, inn í starfshóp landbúnaðarmála.