141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

neytendavernd á fjármálamarkaði.

[11:03]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður fór vítt og breitt yfir sviðið og tók á ýmsu því sem hafa komið upp sem afleiðingar hrunsins og við höfum verið að taka á í gegnum þau þrjú eða fjögur ár sem mín ríkisstjórn hefur setið. Ég get tekið undir ýmislegt sem hv. þingmaður segir um neikvæða vexti og yfirdráttarlánin sem eru einsdæmi og o.s.frv. og hafa verið vandamál lengi. Gengistryggðu lánin þekkjum við nú öll og í þeim er verið að vinna og reyna að ná utan um það mál sem ég held að gangi vel.

Þannig að neytendavernd er nú kannski víða í samfélaginu. Hún er líka hjá ríkisstjórninni vegna þess að við höfum verið að taka á því með margvíslegum hætti og erum núna að taka á því sem hv. þingmaður nefndi líka, lánsveðin sem eru stórmál sem hefur tekið allt of langan tíma að taka á. Það er fundur í dag um þau mál og fleiri sem snúa að skuldavanda heimilanna í sérstökum ráðherrahópi sem er að skoða þau. Við skulum vona að það komist einhver niðurstaða í málið. Það hefur dregist allt of lengi sökum tregðu lífeyrissjóðanna.

Sama gildir um smálánafyrirtækin. Það er hér í þinginu og þar eigum við náttúrlega að ganga eins langt og hægt er til þess að koma í veg fyrir að smálánin séu bara notuð sem okurstarfsemi, eins og hefur verið reynslan.

Varðandi hvar á að vista neytendaverndina. Ég tel alveg sjálfsagt að taka á því og skoða hvar það er best gert. Það hefur ekki verið nægjanlega vel gert, að mínu viti, að því er varðar í Fjármálaeftirlitinu, eins og hv. þingmaður nefndi. Hann nefndi Fjármálaeftirlitið og Neytendastofu.

Síðan þurfum við að skoða betur, í ljósi þeirra breytinga sem hafa orðið á Stjórnarráðinu, hvar í því sé best að vista neytendaverndina. (Forseti hringir.) Það er eitt af því sem við erum að skoða í framhaldi á þeim breytingum sem hafa orðið á Stjórnarráðinu.