141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:54]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Mér þykir bjartsýni hv. þingmanns hafa farið óðum vaxandi síðustu vikuna og ég fagna því sérstaklega. Það er nauðsynlegt. Ástæða þess að ég spyr er sú að nauðsynlegt er að taka þá þætti með inn í umræðuna sem við eigum við 2. umr. um fjárlög einfaldlega vegna þess að þar er um gríðarlegar skuldbindingar að ræða sem krafist er með ýmsum hætti að verði lagðar á tiltölulega fjárvana ríkissjóð að mæta.

Ástæða þess, ég segi það enn og aftur, að ég nefni það hér er sú að þegar við ræðum þau markmið sem við höfum öll sameiginleg, að ná sem fyrst heildarjöfnuði, og helst jákvæðum, í rekstri ríkissjóðs þá verðum við jafnframt að hafa í huga að við eigum eftir að taka, fyrir 3. umr. og við hana, afstöðu til þeirra stóru útgjaldaliða sem við sjáum við sjónarröndina og er óhjákvæmilegt að mæta með einhverjum hætti. Þess vegna legg ég áherslu á að þegar við ræðum um fjárhagsstærðirnar í frumvarpinu eins og það liggur fyrir þá höfum við það jafnframt í huga.