141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég fagna þeim ummælum sem féllu af hálfu hv. formanns fjárlaganefndar um að hann voni að úr því verði bætt með einhverjum hætti milli 2. og 3. umr. Það verður þó að vekja athygli formanns fjárlaganefndar á því að ekki er um nýtt eða óvænt mál að ræða, ekki nýja eða óvænta stöðu, heldur hefur verið vakin athygli á fjárskorti lögreglunnar allt þetta haust og raunar lengur.

Hér hafa verið margar umræður í þinginu. Það var tekið fyrir við 1. umr. fjárlaga og hæstv. innanríkisráðherra hefur meðal annars látið útbúa fyrir sig skýrslu sem gerir mjög skýra grein fyrir þeim fjárskorti sem þarna er. Þannig að auðvitað er ekki um eitthvað nýtt eða óvænt að ræða heldur eitthvað sem hefur verið fyrirsjáanlegt allan undirbúningstíma fjárlaganna.

En guð láti á gott vita, ég vona að við getum staðið saman að úrbótum í þeim efnum milli 2. og 3. umr.