141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:07]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Þær pólitísku línur sem hafa verið á undanförnum árum hér á Alþingi hafa verið skýrar og þær hafa skýrst eftir því sem liðið hefur á kjörtímabilið. Þær liggja annars vegar frammi í þeim frumvörpum sem við erum að ræða hér, fjárlagafrumvörpum sem við höfum afgreitt undanfarin ár, því fjárlagafrumvarpi sem við erum með hér í dag og þeim breytingartillögum sem við leggjum fram. Hins vegar má finna þær í tillögum stjórnarandstöðunnar og þar á meðal Sjálfstæðisflokksins í efnahagsmálum, þar sem dregnar eru fram gömlu tillögurnar endurprentaðar og færðar „up-to-date“ frá árinu 2007 um skattalækkanir, um niðurskurð í heilbrigðiskerfinu, um niðurskurð í velferðarkerfinu, um einkavæðingu sjúkrahúsa og um aflagningu Íbúðalánasjóðs. Þetta eru þær tillögur og þetta eru þær línur sem dregnar hafa verið upp og valið stendur á milli.

Íbúðalánasjóður er nú einhverjum skyldur — hér inni — og afleiðingar þess sem við erum að glíma við hér í dag. Það eru afleiðingar vegna rangra ákvarðana í löngum bunum frá upphafi tíunda áratugarins fram að hruni. Þetta er hrunafleiðing, þetta er hrunmál (Forseti hringir.) og það eru skýrar línur, virðulegur forseti.