141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[12:08]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gaman að því að hv. formaður fjárlaganefndar heldur áfram að skjóta á hæstv. forsætisráðherra eins og hann gerði á vefsíðu sinni um daginn, með tilvísun í rangar ákvarðanir sem teknar hafa verið um Íbúðalánasjóð, það er athyglisvert.

Förum aðeins að forgangsröðuninni og grunninum sem þetta fjárlagafrumvarp er byggt á. Ég talaði um innstæðulausa fjárfestingaráætlun og gæluverkefni sem væri verið að úthluta. Þar er fyrirvarinn skýr af hálfu meiri hluta nefndarinnar sjálfrar. Meiri hluti nefndarinnar telur ekki einu sinni vera innstæðu fyrir þeim þannig að gæluverkefnin eru öll sett fram með fyrirvara.

Tökum þá á raunverulegum vanda innan ríkisrekstrarins. Hv. þingmaður nefndi hér framhaldsskólana. Jú, það er 325 millj. kr. framlag sem er útdeilt til framhaldsskólanna samkvæmt sérstöku yfirliti. Þar get ég nefnt eitt dæmi, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, sem fær 14,6 millj. kr. úthlutað en beiðni þeirra var um 70 millj. kr. til að geta haldið óbreyttri (Forseti hringir.) starfsemi, 14,6 milljónir fær skólinn sem þýðir ekkert annað en uppsagnir og skerðingu á þjónustu við nemendur þvert á það sem ríkisstjórnin hefur lofað um að bæta menntunarstig á Suðurnesjum.