141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:41]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir gott yfirlit yfir efnahagsstefnu ríkisstjórnarinnar eins og hún birtist í fjárlögum undanfarinna ára.

Hv. þingmaður lýsti efnahagsstefnunni þannig að hún einkenndist af hallarekstri og frestun skuldagreiðslna fram í tímann. Ég vil í framhaldi af því spyrja hann út í hvatningu 1. minni hluta hv. fjárlaganefndar þess efnis að ríkisstjórnin breyti um stefnu og taki upp aðra sem feli í sér stækkun skattstofna. Ég geri ráð fyrir að 1. minni hluti sé að tala um að ríkisstjórnin þurfi að lækka skatta.

Virðulegi forseti. Forsenda þess að skattalækkun leiði til stærri skattstofns er jú sú að fyrirtæki og einstaklingar noti ekki skattalækkunina til þess að greiða niður skuldir eða auka sparnað sinn í bankakerfinu þannig að viðbótartekjur heimila og fyrirtækja vegna skattalækkunarinnar endi ekki bara í bankakerfinu.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því að skattalækkanatillögur Sjálfstæðisflokksins leiði einfaldlega til þess að meiri peningar verði í bankakerfinu. Ég mundi líka gjarnan vilja vita hvernig hv. þingmaður telur að best sé að koma í veg fyrir að slíkt gerist.