141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Það er ánægjulegt að fá tækifæri til að ræða hvernig hvatningin í nefndaráliti okkar til ríkisstjórnarinnar, um að breyta um stefnu í efnahagsmálum, er hugsuð. Fyrir það fyrsta teljum við, og bendum á það í nefndaráliti okkar, að í stað þess að vinna með aðilum vinnumarkaðarins, hvort heldur fyrirtækjum, verkalýðsfélögum eða samtökum launþega á vinnumarkaði, þá hefur ríkisstjórnin sýknt og heilagt efnt til átaka við þann grunnhóp í íslensku samfélagi sem leikur lykilhlutverk í að efla atvinnulíf í landinu.

Þó að ekki væri annað en að standa við, eins og raunar Samtök atvinnulífsins og ASÍ hafa lýst yfir, þá samninga sem menn hafa gert um að taka saman höndum og reyna að búa svo um hnútana að hér verði vöxtur í almennu atvinnulífi auk annarra verkefna sem menn vilja sjá og skiptar skoðanir hafa verið um pólitískt. Þó að ekki væri nema bara þetta eitt þá væri til mikils unnið.

Varðandi skattalækkanirnar. Þeir þættir sem við sjálfstæðismenn höfum verið að ræða lúta ekki að því að færa fjármagn til með þeim hætti að menn safni bara innstæðum á sjóði. Við höfum ekkert verið að ræða það. Við höfum talað fyrir því að skattalagabreytingarnar sem gerðar voru á sínum tíma, í upphafi starfstíma þessarar stjórnar og síðan sífelldar álögur, hafi skaðað innviði atvinnulífs meira en góðu hófi gegnir. Við höfum til dæmis bent á varðandi tryggingagjaldið að það geri ekkert annað en að draga úr atvinnustigi þjóðarinnar. Það eru þeir þættir sem við horfum fyrst og fremst til og höfum gert þegar við ræðum skatta, þ.e. að liðka til fyrir því að hér geti verið meiri atvinna (Forseti hringir.) en núverandi skattstefna stjórnvalda hefur leitt af sér.