141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:50]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka félögum mínum í fjárlaganefnd fyrir ánægjulegt samstarf. Við höfum tekist á um ýmis atriði í fjárlagafrumvarpinu eins og gengur. Við erum ósammála um vinnubrögð. Það er ágætissamvinna og við höfum tekið okkur til og unnið saman að ýmsum hlutum, sem ég tel að séu ágætt veganesti inn í framtíðina og vonandi verða þau vinnubrögð viðhöfð seinna meir, á komandi kjörtímabili.

Ég tel mikilvægt þegar við fjöllum um fjárlög hvers árs að við setjum niður fyrir okkur hvaða hugmyndafræði við viljum nota til að byggja fjárlögin á. Ég tel að samvinna og sú grundvallarhugsun að vinna sé undirstaða velferðar, eigi að vera leiðarljósið þegar við semjum fjárlög fyrir hvert ár. Ég ítreka mikilvægi samvinnunnar og þeirrar hugsjónar að við eigum að stefna að því að allir geti haft atvinnu og að meiri hluti fólks á hverjum tíma ráði. Því miður höfum við horft upp á það í sölum Alþingis að foringjaræðið er enn til staðar, en með góðum vilja, nýjum mönnum og betri vinnubrögðum verður vonandi hægt að vinda ofan af því. Ég ber þá von í brjósti að breytingar á stjórnarskránni muni hjálpa okkur í þeirri vegferð þó að ég vari fólk við að breyta núgildandi stjórnarskrá um of.

Verkefnið sem núverandi ríkisstjórn réðist í var stórt og við verðum að viðurkenna að það var ærið verkefni. Hallinn var um 240 milljarðar. Það þurfti að vinna á honum með einum eða öðrum hætti. Ríkisstjórnin ákvað að fara blandaða leið niðurskurðar og skattahækkana. Það má í rauninni segja að það hafi hún gert en það voru fjölmörg atriði sem huga þurfti að áður en farið var í þá vinnu. Til að mynda varð að hækka atvinnustigið í landinu. Með einum eða öðrum hætti þurfti að auka hagvöxtinn og koma fyrirtækjum í gang sem skilað gætu raunverulegum verðmætum inn í þjóðarbúið. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr er hagkerfið okkar lítið á alþjóðlegan mælikvarða og það eru í raun fá atriði sem geta aukið hagvöxt til að standa undir velferðinni í landinu.

Bara það að koma af stað stóriðjuframkvæmdum á Bakka við Húsavík og á Reykjanesi hefði getað myndað meiri hagvöxt. Með auknum hagvexti hefðum við getað varið velferðarkerfið á kjörtímabilinu. En það þurfti að vinna fleiri verkefni og eitt af þeim var að taka til í stjórnsýslunni. Við þurfum að vega og meta nauðsyn og árangur hjá hverri einustu ríkisstofnun og hjá ráðuneytum og sjá til þess að hver einasta króna sparist.

Hér hefur verið vilji fyrir því að auka vægi Alþingis og þá um leið að minnka vægi framkvæmdarvaldsins. Samþykkt var þingsályktun þar sem allir þingmenn greiddu atkvæði um að styrkja löggjafarvaldið. Við skulum ekki gleyma því að þegar hrunið blasti strax við hversu veikt löggjafarvaldið í landinu er, hversu lítil ítök þess eru raunverulega jafnvel þótt almenningi í landinu finnist að það eigi að vera meira. Ég hef bent á að formenn flokka hafa haft allt of mikil völd í landinu. Ráðherrar hafa haft úr of miklum fjármunum að spila. Mér er það mjög minnisstætt þegar tvær þingkonur stigu hér í pontu haustið 2008 og sögðu að þeim liði eins og þær væru afgreiðslukonur á kassa. Við skulum hafa í huga að þessar konur voru í þáverandi meiri hluta. Þær voru ekki í stjórnarandstöðu en þær upplifðu það sem öllum var ljóst að Alþingi væri ekki þess umkomið að bregðast við þeirri kreppu sem skall á Íslandi.

Ég hlustaði á félaga mína í Sjálfstæðisflokknum og Samfylkingunni ræða áðan um það hvernig fjárlagavinna hefði farið fram, ekki bara á þessu kjörtímabili heldur líka á árunum þar á undan. Það er alveg rétt að hér var útgjaldaþensla á árunum fyrir hrun. En menn áttuðu sig á því að það leiddi til þeirrar kreppu sem svo skall á okkur með þunga haustið 2008. Engu að síður ákvað ríkisstjórn Samfylkingar og Sjálfstæðisflokks að auka ríkisútgjöldin um 20%. Framsóknarflokkurinn var ábyrgur og sagði: Það gengur ekki. Jafnvel þó að það sé ekki fallið til vinsælda teljum við ekki að auka eigi útgjöldin svona mikið. Vinstri grænir voru reyndar á því að bæta mætti aðeins við og stjórnarandstaðan fyrir hrun lagði því miður oft og tíðum fram tillögur þess efnis að bæta frekar í en að staldra við.

En við komumst ekkert áfram með því að rifja upp hverjir gerðu hvað heldur verðum við að læra af mistökunum. Ég held að það sé verkefnið sem fram undan er, við eigum að læra af mistökum sem gerð voru fyrir hrun og við eigum líka að læra af mistökum sem gerð voru eftir að núverandi ríkisstjórn tók til starfa. Ég er nefnilega þeirrar skoðunar að það sé algert lykilatriði og forgangsverkefni að koma á aga í fjármálastjórn ríkisins. Ég veit að flestir eru sammála um að það sé nauðsynlegt. Og hvort sem menn vilja halda í krónuna eða taka upp evru er það forsenda þess að hér sé hægt að reka gjaldmiðil með nauðsynlegan trúverðugleika bæði hérlendis og erlendis. En aginn gerir það líka að verkum að verðbólgusveiflur verða miklu minni. Við getum horft til Svíþjóðar og séð hvernig Svíar hafa hagað sínum málum, vegna þess að þeir lentu í svipaðri kreppu og við fyrir um 20 árum. Þeir eru að vísu í Evrópusambandinu en með sjálfstæðan gjaldmiðil. Þar hafa ráðherrar enga heimild til að ráðstafa fjármunum almennings. Þetta var það fyrsta sem Svíar gerðu þegar þeir lentu í kreppunni, það var algert forgangsatriði.

Það sem við höfum hins vegar gert í krafti meiri hlutans á Alþingi er að auka við þær heimildir sem ráðherrar hafa. Í fjárlögum er nokkuð sem heitir fjárfestingaráætlun en ég get ekki betur séð en að ráðherrar hafi mikið um það að segja hvernig fjármunum er útdeilt til fyrirtækja, stofnana og einstaklinga. Það er þvert á það sem við ættum að vera að gera nú stundir til að koma á nauðsynlegum aga.

Þeir sögðu líka að í Svíþjóð hvarflaði ekki að nokkrum þingmanni að lofa fjármunum til einhverra verkefna sem ekki væru innan tiltekins ramma sem ákveðinn hefði verið með góðum fyrirvara áður en fjárlögin voru samin vegna þess að peningarnir væru einfaldlega ekki til. Menn vissu að ef þeir ætluðu sér að fara út fyrir rammann í algerum undantekningartilfellum mundu þeir mjög fljótlega missa tökin á ríkissjóði. Það er ekki svo langt síðan við vorum á sama stað og Ungverjaland hvað varðar mun á frumvarpi til fjárlaga og ríkisreikningi. Það segir okkur að við höfum enn verk að vinna á þeim vettvangi.

Eitt stærsta vandamál Íslands í dag er að við búum við gjaldeyrishöft. Gríðarlegt fjármagn í landinu bíður þess eins að komast úr landinu. Bent hefur verið á að Íslendingar eigi því miður ekki gjaldeyri til að losna við gjaldeyrishöftin. Það er frumskilyrði að við náum aga í ríkisfjármálum til að mynda grundvöllinn fyrir því að losa gjaldeyrishöftin, ég held að það sé forsenda þess.

Eins og ég benti á áðan getur aukinn hagvöxtur komið hjóli atvinnulífsins af stað. En hvað knýr áfram þann hagvöxt sem þó er í landinu? Talið er að hann muni verða um 2,7% árið 2012 og er áætlað í spám Hagstofunnar að hann verði eitthvað svipaður á árinu 2013. En hagvöxtur er knúinn áfram af úttekt á séreignarsparnaði og hækkunum á kjarasamningum. Í raun má segja að ekki sé mikil verðmætaaukning í þeim hagvexti sem hér er. Nú var ríkisstjórnin að gefa auknar heimildir til að almenningur geti tekið út séreignarsparnaðinn sinn, væntanlega til að halda uppi þeim hagvexti sem þó er í landinu. Kjarasamningar og hækkun launa gera það að verkum að einkaneysla mun halda áfram en vandamál Íslands eru því miður það stór að við getum ekki leikið þá leiki áfram. Við verðum að koma atvinnulífinu af stað með einum eða öðrum hætti.

Það er líka eitt óleyst vandamál sem ríkisstjórnin hefur heykst á að taka til hendinni í, það er vandi heimilanna. Hann er óleyst verkefni og það verður verkefni næstu ríkisstjórnar að leysa þann vanda þannig að almenningur í landinu finni það á eigin skinni að sanngirni hafi verið gætt við lausn vandans.

Umræðan um fjárlög ber því miður þess merki að kosningar eru í nánd. Ekki tókst að halda vinnuáætlun fjárlaganefndar og risastór mál bíða nú afgreiðslu þar. Ég get nefnt eitt þeirra sem er bygging nýs Landspítala – háskólasjúkrahúss. Áherslur Framsóknarflokksins hafa verið þær að vernda velferðarkerfið. Það er algert lykilatriði við fjárlagagerð hvers árs að við leitumst við að vernda velferðarkerfið og gæta að þeim sem minna mega sín í þjóðfélaginu, að öldruðum, öryrkjum og atvinnulausum.

Ríkisstjórnin nefndi það fyrir ekki svo löngu að búið væri að setja aukið fé í velferðarmálin en þegar grannt var skoðað kom í ljós að þeir fjármunir sem fóru í Atvinnuleysistryggingasjóð voru taldir þar með. Í fjárlögum fyrir árið 2011 var gengið of nærri heilbrigðiskerfi landsmanna. Lagt var af stað í grundvallarbreytingar án þess að fyrir lægi stefna og áætlun um fyrirkomulag heilbrigðisþjónustunnar. Hvað sem mönnum finnst er það einfaldlega þannig að þegar lagt er af stað með 30% eða 40% niðurskurð á heilbrigðisstofnun munu felast í því kerfisbreytingar. Kerfisbreytingarnar áttu að fara af stað án umræðu á Alþingi. Knýja átti þær í gegn með breytingum á fjárlögum. Þó verður að viðurkennast að sá niðurskurður var mildaður eftir mikla baráttu og var hægt að standa vörð um þá heilbrigðisþjónustu sem þarf nauðsynlega að vera til staðar hringinn í kringum landið.

Vinda þarf ofan af þeirri stefnu sem stjórnvöld lögðu upp með á kjörtímabilinu. Höfum eitt í huga: Þegar Framsóknarflokkurinn skilaði af sér heilbrigðisráðuneytinu árið 2007 gerði OECD úttekt á heilbrigðiskerfi landsmanna. Heilbrigðiskerfið okkar fékk hæstu einkunn og OECD nefndi að ekki væri kerfið bara lofsvert heldur ættu aðrar þjóðir að taka það sér til fyrirmyndar. Nú er staðan þannig að heilbrigðisstofnanir víðs vegar um landið eiga í verulegum rekstrarvanda og hafa þurft að grípa til erfiðra ráðstafana. Sá vandi mun með einum eða öðrum hætti lenda á ríkissjóði og við blasir að endurbyggja þarf heilbrigðisþjónustuna víðs vegar um landið.

Þá bendi ég líka á að uppbygging nýs Landspítala mun taka til sín mikið fjármagn og draga til sín mörg verkefni sem nú er sinnt á landsbyggðinni. Fullyrt er að hægt sé að spara með nýbyggingunni og að sparnaðurinn komi í veg fyrir að skera þurfi niður í heilbrigðismálum landsins. Ég held að skera þurfi niður í heilbrigðismálum landsins. Ég held að hver maður sjái að útilokað er að ná fram 3 milljarða sparnaði á ári nema með fækkun starfsfólks, launalækkunum og öðrum erfiðum aðgerðum. Það mun hafa í för með sér aukinn kostnað að fara með sjúklinga í einbýli. Ef endurskipuleggja á þjónustuna þannig að hún fari fram frekar á daginn en á kvöldin og nóttunni mun hafa það í för með sér að laun starfsfólks munu lækka. Ef menn vilja fara í byggingu hátæknisjúkrahúss verða menn að minnsta kosti að viðurkenna hvað það mun hafa í för með sér.

Ég hef gagnrýnt harðlega að ekki hafi verið gerð úttekt eða ítarleg grein fyrir áhrifum nýbyggingarinnar á heilbrigðisþjónustu í dreifðum byggðum landsins. Ég er þeirrar skoðunar að gera þurfi þá úttekt áður en við samþykkjum að setja nýbygginguna af stað. Við verðum líka að meta áhrif framkvæmdanna á fjárhag ríkisins til næstu ára. Það hefur ekki verið gert. Talað er um 40–60 milljarða í fyrsta áfanga, 100 í öðrum áfanga. Ljóst er að um er að ræða hvorki meira né minna en einhverja stærstu framkvæmd Íslandssögunnar í öðrum áfanga.

Við skulum hafa eitt í huga. Harpa átti að kosta 6 milljarða, hún endaði í 34 milljörðum, kostnaðurinn sexfaldaðist næstum því. En það þarf ekki bara að skoða heilbrigðisþjónustuna hvað landsbyggðina varðar heldur líka mörg önnur atriði. Byggðastofnun var falið fyrir tæplega tveimur árum að vinna að úttekt á áhrifum fjárlaga á byggðir landsins. Nauðsynlegt var að skoða hvaða áhrif niðurskurðurinn í heilbrigðisþjónustunni hefði haft á núverandi kerfi. Sú úttekt sem fara átti fram liggur ekki enn þá fyrir. Það er ríkisstjórninni til vansa að hafa ekki gert þá nauðsynlegu úttekt.

Ég er 1. flutningsmaður að þingsályktunartillögu þar sem þingflokkur Framsóknarflokksins leggur til að ríkisstjórnin móti stefnu um jafnan rétt fólks um allt land til nauðsynlegra þátta, til að mynda aðgengis að læknum, heilbrigðisþjónustu, samgöngum og öðrum þáttum sem stuðla að samkeppnishæfni alls landsins. Í mínum huga er nauðsynlegt að slík fullmótuð byggðastefna og jafnrétti til búsetu sé fyrir hendi áður en stórar ákvarðanir eru teknar í fjárlögum landsins sem hafa munu áhrif á lífskjör almennings til framtíðar.

Ríkisstjórnin hefur sagt að náðst hafi góður árangur í stjórnun fjármála og hún hefur gagnrýnt stjórnarandstöðuna fyrir að neita að sjá þann mikla og góða árangur. Hv. formaður fjárlaganefndar hvatti stjórnarandstöðuna til að færa rök fyrir skoðunum sínum ef hún efaðist um að þær fullyrðingar ættu við rök að styðjast.

Ég held að fyrsta svarið mitt sé að ríkisstjórninni væri þá nær að koma með nauðsynleg rök fyrir því að hún hafi náð þeim árangri sem stefnt var að. En þegar við metum árangur skulum við fyrst líta til þess að ríkisstjórnin setti sér sjálf markmið og áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum árið 2009 og lagði fram sérstaka skýrslu sem ég held að allir geti verið sammála um að hafi verið frekar lágstemmd og varfærnisleg en hitt. Markmiðin voru ekkert sérstaklega háleit. Ég mundi segja að ríkisstjórninni hafi í raun ekki tekist að ná þeim markmiðum sem hún setti sér. Það er hinn raunverulegi dómur um störf ríkisstjórnarinnar.

Eitt af þessum markmiðum var að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði jákvæður á árinu 2011. Annað var að heildarjöfnuður ríkissjóðs yrði jákvæður á árinu 2013 og að til lengri tíma litið yrði skuldsetning ríkissjóðs ekki meiri en sem svaraði 60% af vergri landsframleiðslu. Til að ná þessum meginmarkmiðum var gert ráð fyrir að frumjöfnuður ríkissjóðs yrði -7,7% af vergri landsframleiðslu á árinu 2009, 1,3% af vergri landsframleiðslu á árinu 2010, 3,4% af vergri landsframleiðslu á árinu 2011, 6,5% á árinu 2012 og 8,6% á árinu 2013.

Í spá Hagstofunnar sem lögð var til grundvallar þessum markmiðum var gert ráð fyrir að hægt yrði að ná um 4,4% hagvexti á þessu ári sem er nú í 2,4%. Verðbólgan átti að vera komin niður í 1,6% en var 4,6%, í nóvember 2012.

Samkvæmt Hagtíðindum frá 8. mars 2012, en það er rit Hagstofu Íslands, nam landsframleiðsla 2011 1,630 milljörðum kr. Miðað við þær forsendur má ætla að landsframleiðsla muni nema um 1,7 milljörðum kr. í lok árs 2013. Miðað við upphafleg markmið ætti því frumjöfnuður að nema 147,5 milljörðum kr. í stað 60,4 milljarða kr., eins og fram kemur í frumvarpinu, en það er ekki einu sinni helmingur þess árangurs sem upphaflega var gert ráð fyrir.

Með því að auka skuldir ríkissjóðs á næsta ári fjarlægist ríkisstjórnin upphafleg markmið sín. Skuldsetning ríkissjóðs nemur tæplega 95% af landsframleiðslu og á því langt í land með að það markmið náist að lækka skuldirnar í 60% af vergri landsframleiðslu.

Fullyrt hefur verið í ræðustól að eitt af markmiðunum hafi verið að lækka skuldastöðu ríkissjóðs og ná niður vaxtakostnaði, en eins og ég hef nefnt er ríkisstjórnin langt frá þeim markmiðum sem hún setti sér í upphafi. Við skulum þó athuga að í áætlun um ríkisfjármál, sem fjallar um ríkisbúskapinn 2012–2015, voru markmiðin endurskoðuð. Nú er gert ráð fyrir að aðlögun ríkisfjármálanna þurfi ekki að vera jafnskörp og -hröð og lagt var upp með árið 2009. Markmiðið um jákvæðan heildarjöfnuð er nú sett fyrir árin 2013 og 2014 auk þess sem nokkuð minni afgangur í byrjun er talinn nægilegur.

Ríkisstjórnin setti fram nokkrar ástæður þessa endurmats á aðlögunaráætluninni. Í fyrsta lagi mat ríkisstjórnin það þannig að aðlögunarþörfin hefði verið minni en upphaflegar áætlanir höfðu gert ráð fyrir.

Í öðru lagi að kom þar fram að þrátt fyrir mildara aðlögunarferli væri hallinn á ríkisjöfnuði í ár, heildarjöfnuður, áætlaður um 1% minni en samkvæmt upphaflegri áætlun Íslands og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Nú er gert ráð fyrir að hallinn verði neikvæður um um það bil 2,5% af vergri landsframleiðslu, sem veitir ríkissjóði aukið svigrúm að mati ríkisstjórnarinnar.

Í þriðja lagi var það mat stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að þungvæg efnahagsleg rök hnigju að því að mikil og hröð aðlögun í ríkisfjármálum, til viðbótar við það sem þegar hefur átt sér stað, gæti haft veruleg neikvæð áhrif á efnahagslífið í heild, þ.e. að vexti hagkerfisins yrði þá stefnt í hættu.

Ég hef áhyggjur af því að vandi ríkissjóðs sé töluvert meiri en fullyrt er í fjárlagafrumvarpinu. Við vitum með vissu að við þurfum að bæta við 8 eða 9 milljörðum í fjáraukalögum þessa árs út af Íbúðalánasjóði. Fyrir liggur að vandi ríkissjóðs nemur ekki þeim 13 milljörðum sem ríkisstjórnin ætlar að setja í sjóðinn á þessu ári auk þeirra 33 milljarða sem nú hafa horfið í hítina og 7–8 milljarðar hið minnsta koma fram í fjáraukalögum þessa árs. Það er ekki þannig sem fjáraukalög eru hugsuð, þau eiga ekki að fegra stöðuna við 2. umr. fjárlaga.

Ég bendi á að margir áhættuþættir geta gert það að verkum að ríkisstjórnin þarf að endurmeta markmið sín. Skuldahlutfall ríkissjóðs er mjög hátt sem og erlendar skuldir þjóðarbúsins. Það getur takmarkað möguleika stjórnvalda til að takast á við áföll í náinni framtíð. Ég nefndi áðan að gjaldeyrishöftin væru einn stærsti, einstaki áhættuþátturinn sem steðjaði að þjóðarbúinu um þessar mundir. Afnám þeirra gæti haft í för með sér mikið útflæði fjármagns og óstöðugleika. Erfitt er að sjá hvort ríkisstjórnin hefur raunverulega stefnu og markmið til að vinna á þeim vanda. Margir hafa bent á að slíkt tómlæti geti leitt til þess að Íslendingar gætu þurft að búa við gjaldeyrishöft í langan tíma. Ég ítreka nauðsynlegan aga við fjárlagagerð hvers árs, hann getur skapað grundvöll til að unnt verði að afnema gjaldeyrishöftin fyrr en síðar.

Matsfyrirtækið Moody's hefur bent á að ef málaferlin í Icesave-málinu fara illa geti þau haft veruleg útgjöld í för með sér fyrir ríkissjóð. Ég vil þó taka fram að ég tel allar líkur á því að það mál fari vel og að öll sú barátta sem háð var leiði til hagfelldari niðurstöðu fyrir Íslendinga en ef Icesave-samningarnir hefðu verið samþykktir.

Það er líka rétt að benda á að bankakerfið er enn veikburða og viðkvæmt fyrir ytri áföllum. Moody's bendir á það auk fyrrgreindra þátta. Þar er kannski helsti vandinn sem ríkisstjórnin hefur ekki sinnt nægilega, þ.e. vandi heimila og fyrirtækja í landinu og hið háa vanskilahlutfall, sem veikir stöðu bankanna. Ég vara ríkisstjórnina við áformum um að sækja arðgreiðslur úr bönkunum sem veikja munu eiginfjárstöðuna.

Ég hef áður fjallað um erfiða stöðu Íbúðalánasjóðs, stöðu Hörpu, erfiða fjármögnun nýs Landspítala og mætti alveg bæta við þá upptalningu ófrágengnum vandamálum löggæslunnar og heilbrigðiskerfisins auk margra annarra þátta.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra að sinni. Ég bind vonir við að fjárlaganefnd nái að ljúka við ný fjárreiðulög fyrir komandi kosningar. Ég tel að vilji sé til þess og samstaða um það í fjárlaganefnd. Ég tel nauðsynlegt að það gerist fyrir komandi alþingiskosningar vegna þess að þeir sem í henni sitja hafa unnið vel að því verkefni. Ég tel afar brýnt að það mál komi inn í þingið og að ný fjárreiðulög verði afgreidd frá Alþingi.