141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:35]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég hef nefnt þá var eitt af mikilvægustu verkefnum fjárlaganefndar og við fjárlagagerðina að ná fram nauðsynlegum aga. Ég hef líka nefnt annað atriði, að efla löggjafarvaldið og þá sérstaklega gagnvart framkvæmdarvaldinu. Það kom upp umræða um að safnliðir væru einhvers konar tæki þingmanna í fjárlaganefnd fyrir kjördæmapot. Jólasveinarnir í Dimmuborgum voru gagnrýndir, Spákonusetur og fleira var talið ónauðsynlegt, en það sem ég benti hins vegar á var að fjárveitingavaldið er hjá Alþingi og það er mjög mikilvægt að það sé þar. Það er þar samkvæmt stjórnarskránni og það er alveg sama hvert litið er, flest lönd telja mikilvægt að það sé algjörlega skýrt hverjir fara með fjárveitingavaldið.

Það sem gerðist hins vegar var að ráðherrar fengu auknar heimildir til þess að útdeila fjármunum og síðan fengu sveitarstjórnarmenn tækifæri til þess að deila þeim út líka. Þá myndaðist mikil óánægja sem ég veit að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson þekkir sérstaklega af Austurlandi. Auk þess myndaðist togstreita á milli ráðuneytanna sjálfra og tillögur sveitarstjórnarmanna voru jafnvel ekki samþykktar í öllum tilvikum. Það sem skiptir öllu máli er það að þessar fjárveitingar voru fyrst og fremst hugsaðar til þess að styrkja menningarlíf á landsbyggðinni. Til þess að mynda hið raunverulega mótvægi við höfuðborgarsvæðið og til þess að koma verkefnum af stað sem aðrir hafa ekki jafngóða yfirsýn yfir, eins og þingmenn fjárlaganefndar.