141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni og öðrum þingmönnum sem hafa komið með fyrirspurnir, fyrir spurningar þeirra. Við erum sammála, ég og hv. þingmaður, um nauðsyn þess að setja Alþingi fjármálareglur. Við höfum séð það gert varðandi sveitarfélög. Það fékk nokkra gagnrýni en ég held að flestir séu sammála um að það hafi verið bráðnauðsynlegt. Við getum ekki horft upp á það ár eftir ár að ýmis sveitarfélög geti keyrt fram úr áætlunum en fengið það svo að einhverju leyti bætt í gegnum jöfnunarsjóðinn, þá kannski á kostnað annarra sem hafa verið að standa sig vel. Það var ágætt að fá það frá Seðlabankanum, að það vantaði aga við gerð fjárlaga.

Seðlabankinn hefur að undanförnu sent frá sér spár sem hafa verið ansi langt frá raunveruleikanum og í rauninni ekki gengið eftir. Ég er þeirrar skoðunar að hugsanlega bíti þetta allt í skottið á sér. Fjárlögin eru unnin í samræmi við þær spár sem koma frá Hagstofunni og fyrirliggjandi tölum frá Seðlabanka Íslands.

Meðan agaleysið er staðreynd þá er mjög erfitt fyrir þessa aðila að setja fram raunverulegar spár. Ég veit að hv. þingmaður þekkir það, frá því þegar fjárlaganefnd fór til Svíþjóðar, hvernig Svíar hafa gert þetta. Þeir vilja hafa öll markmið, allar spár geirnegldar og eru með mjög þétt og virkt net til þess að fá fram eins skýra og mikilvæga mynd af framtíðinni, vegna þess að það er hún sem við erum jú alltaf að vinna með. Ég tek heils hugar undir með hv. þingmanni, við höfum verið skoðanabræður í því að hér þurfi að koma á nauðsynlegum aga.