141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[16:39]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Kristján Þór Júlíusson) (S) (andsvar):

Forseti. Þá liggur fyrir að halli á heildarjöfnuði upp á 2,8 milljarða er útgjaldamarkmið fjárlaganna. Þó svo að hv. þingmaður hafi dregið inn tillögur Sambands ungra sjálfstæðismanna er ekki hægt að gera lítið úr þeim, þótt menn séu ekki sammála þeim eru þær þó tilraun til að nálgast ákveðinn vanda. Ég hef ekki séð neinar tillögur enn þá frá hv. fjárlaganefnd og meiri hluta hennar í þá veru til að lækka útgjöldin inni í frumvarpinu eins og það er, til að mæta þeim tugum milljarða kr. sem er boðað að komi inn á milli 2. og 3. umr.

Maður skyldi ætla að meiri hluti fjárlaganefndar taki mark á tillögum ríkisstjórnarinnar. Hún hefur boðað, gerði það í fréttum, að hún ætlaði að leggja 13 milljarða inn í Íbúðalánasjóð. Ég vænti þess þá að meiri hluti fjárlaganefndar sé byrjaður að forma með einhverjum hætti hvernig eigi að skera niður útgjöldin upp á 11,7 milljarða kr. til að mæta því ef það á að halda sig í þeim ramma sem nú þegar liggur fyrir. Ég deili alveg áhyggjum hv. þingmanns varðandi það að það verður erfitt verkefni en ég óska þeim svo sannarlega góðs í því, við skulum liðsinna þeim með það.

Af því að hv. þingmaður nefndi að það yrði að standast freistingar í þeim efnum ætla ég að nefna eitt verk úr þessari makalausu skóflustunguáætlun. Það er ætlunin að veita hálfan milljarð í náttúruminjasafn. Getur hv. þingmaður upplýst mig um hvaða samningar liggja þar að baki á milli ríkis og borgar? Hvernig kostnaðarhlutföllin eru ætluð í þeim efnum og hvernig rekstri þeirrar væntanlegu byggingar verði háttað í framtíðinni. Það háttar svo til að ég hef ekki séð þau gögn.