141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:32]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Frú forseti. Óhætt er að fullyrða að það fjárlagafrumvarp sem hér er til umfjöllunar marki nokkur tímamót. Staðan í ríkisfjármálum hefur tekið stakkaskiptum á kjörtímabilinu, eins og rakið hefur verið í ágætum framsöguræðum hjá formanni og 1. varaformanni fjárlaganefndar. Fjárlögin marka þau skil að jafnvægi hefur verið náð í ríkisrekstri. Niðurskurðarárunum erfiðu er lokið og hér er ráðist í mörg mikilvæg fjárfestingarverkefni í innviðum samfélagsins. Ég ætla að stikla á nokkrum af þeim helstu sem mjög ánægjulegt er að ná hér inn í frumvarp til fjárlaga fyrir 2. umr. og tæpa einnig á nokkrum af þeim sem bíða 3. umr.

Fyrst vildi ég þó mæla fyrir og nefna og kynna breytingartillögu við frumvarpið frá allsherjar- og menntamálanefnd sem var afgreidd út úr þeirri nefnd í gær. Þá tillögu flytja auk mín hv. þingmenn Skúli Helgason, Guðfríður Lilja Grétarsdóttir, Birgitta Jónsdóttir og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir. Það er breytingartillaga vegna heiðurslauna listamanna. Nú í vor voru sett sérlög um heiðurslaun listamanna og var það í fyrsta sinn sem þeim var markaður sérstakur og skýr rammi og fylgdu því nokkrar breytingar.

Ein var sú að sett var þak á fjölda listamanna sem geta verið heiðurslaunaþegar. Þeim hafði fjölgað nokkuð á síðasta áratug eða svo og eru nú 27. Við settum þak um að þeir yrðu ekki fleiri en 25 með sérstöku ákvæði um að hópurinn héldist óbreyttur eins og hann er nú en í framtíðinni yrðu heiðurslaunaþegar aldrei fleiri en 25. Auk þess voru settar sérstakar kríteríur um hvernig valið yrði á þennan lista.

Við breyttum einnig umbúnaði heiðurslauna á þann veg að þau miðast nú við starfslaun listamanna. Þar með hækka þau umtalsvert og því fylgja útgjöld. Samkvæmt frumvarpinu eru þetta 43,4 millj. kr. en breytingin hefur í för með sér 38,5 millj. kr. að auki þannig að tillagan er upp á 81,9 millj. kr. Þessa breytingartillögu flytur nefndin við fjárlögin þannig að þeir 27 listamenn sem einnig hlutu heiðurslaun á því fjárlagaári sem nú er yfirstandandi, og er senn liðið, haldi sínum heiðurslaunum en þau hækki um það sem við ákváðum í sérlögum um heiðurslaun listamanna á Alþingi nú í vor.

Annars vildi ég nefna að það frumvarp sem við ræðum hér í dag er gríðarlega mikilvægur pólitískur áfangi fyrir Alþingi og íslenskt samfélag allt í heild sinni. Það er auðvitað ekki sterkt til orða tekið að það marki, eins og ég sagði áðan, þáttaskil í ríkisfjármálum að jafnvæginu sé náð á nýjan leik og niðurskurðartímanum erfiða lokið. Vonandi taka við ár uppbyggingar þar sem hægt verður á næstu árum að leggja aukið fjármagn til brýnustu velferðarmála, löggæslu, menntunar, heilsugæslu og heilbrigðismála, samgöngumála og þessara gríðarlega þörfu samfélagslegu innviða sem hefur þurft að ganga á og skera niður um allt að fimmtung að raungildi á síðustu þremur árum. Nú er sem betur fer ekki verið að leggja til niðurskurð heldur er annaðhvort verið að halda í horfinu eða bæta í á mörgum sviðum og leggja fé til ýmissa góðra og brýnna verkefna.

Ég vil vekja athygli á einu sérstöku ánægjuefni. Það fellur undir fjárfestingaráætlunina, sem var kynnt hér sérstaklega, en er auðvitað ekkert annað en partur af ríkisfjármálunum og þeim fjárfestingartillögum sem lagðar eru til í fjárlagafrumvarpinu — þær komu sérstaklega inn í frumvarpið núna og þar er að finna mörg stór atriði. Ég ætla að nefna nokkur þeirra.

Eitt af því er þekkingarsetur og tengist rekstri Vatnajökulsþjóðgarðsins austur á Kirkjubæjarklaustri. Þar er ákveðið að setja 290 millj. kr. af þeim 870 millj. kr. sem þekkingarsetrið kostar uppbyggt í að reisa — í fyrra voru settir nokkrir tugir milljóna í að undirbúa verkefnið en nú er það formlega sett á laggirnar þannig að um þriðjungur heildarfjármagns sem kostar að reisa þekkingarsetrið er hér lagður til.

Það er mjög mikill áfangi fyrir þetta samfélag. Eins og við höfum rætt hér í þinginu nú og á síðustu árum hafa þessi sveitarfélög, Mýrdalshreppur og Skaftárhreppur, verið í mikilli vörn. Fólki hefur fækkað í þessum sveitarfélögum um fjórðung á 14 árum. Það er fljótt að segja til sín í fámenninu. Skólar sem áður hýstu rúmlega 100 börn hýsa nú liðlega 40 börn o.s.frv. Þannig að samfélagið er í miklum erfiðleikum og miklum samdrætti og góð ráð dýr.

Það er ekki þannig að þessi eina aðgerð snúi vörninni í bullandi sókn en þetta er mikil viðspyrna og var mikið áhersluatriði sveitarfélaganna á þessu svæði að ráðist yrði í þetta verkefni. Eins og sveitarstjórinn sagði fyrir nokkrum dögum í samtali við Sunnlenska fréttablaðið þá skiptir gífurlega miklu máli fyrir Skaftárhrepp að farið sé í þetta stóra og mikla verkefni sem getur skapað mörg störf og mikla iðu og ákveðinn samfélagsklasa sem tengist menntun, menningu, ferðaþjónustu, rannsóknum og ýmsu öðru. Þetta er því mikið ánægjuefni og tengist fjárfestingaráætlun.

Þá má nefna framlög til fangelsismála. Milljarður í nýtt fangelsi á Hólmsheiði, fjármagn til uppbyggingar, öryggismála og fleiri þátta á Litla-Hrauni og Sogni; búið vel um þau og bætt þar verulega í. Einnig má nefna Íslenska ættleiðingu sem hefur átt í erfiðleikum með að sinna sínum verkefnum. Það er félagsskapur sem hefur mikla stjórnsýslulega ábyrgð og stjórnsýslulegt hlutverk í ættleiðingarferli barna til Íslands. Fjármunir til hennar voru langt undir því að hún gæti sinnt settum markmiðum en félagið var að semja um það við innanríkisráðuneytið hvaða þætti það ætti að inna af hendi í ferli frá því að foreldrar sækja um og þar til þeir sækja barnið til útlanda. Hér er markmiðum félagsins náð.

Lagður var til 15 milljóna kr. auki í tillögum ríkisstjórnar og fjárlaganefnd bætti 10 milljónum kr. við, þannig að hér eru lagðar 25 milljónir króna í aukningu til Íslenskrar ættleiðingar svo að félagið geti sinnt þeim stjórnsýslulegu skyldum og því félagslega ábyrgðarhlutverki sem það hefur með höndum með sóma. Ég tel að þetta marki það að félagið geti sinnt þessu og er mikið ánægjuefni að þetta mikilvæga mál sé leitt í þennan farveg.

Þá má nefna nýja ferju á milli lands og Vestmannaeyja, nýjan Herjólf og umbætur í Landeyjahöfn. Í fjárfestingaráætlun er lagður um hálfur milljarður í það verkefni þannig að farið verður af stað við að búa til nýja ferju á milli lands og Eyja. Þarna er nýr Herjólfur sem passar við þá miklu framkvæmd sem Landeyjahöfn var og markaði mikil tímamót í samgöngum milli lands og Eyja. Núverandi skip er ekki til þess hannað og smíðað. Það er of stórt og djúprist o.s.frv. Nú er hægt að fara í að smíða nýjan Herjólf sem gerir að verkum að höfnin mun nýtast svo gott sem allt árið um kring, kannski með einhverjum örfáum undantekningum, einhverjum vikum í desember, janúar og febrúar þegar mestu veðrin ganga yfir. Það er mjög ánægjulegt að Herjólfur skuli komast inn á fjárlög og þetta stóra mál ganga fram. Það er líka brýnt byggðamál rétt eins og þekkingarsetrið sem ég nefndi hérna áðan.

Þá er auknu fjármagni varið til Útlendingastofnunar, um 18 millj. kr., þannig að hún geti ráðið tvo lögfræðinga í viðbót og þannig sinnt verkefnum sínum og unnið á þeim biðlistum sem þar hafa skapast.

Eitt gott verkefni sem 10 millj. kr. eru settar í eru Hekluskógar, mikið landbótaverkefni, verið að rækta upp það gríðarlega mikla svæði sem var skilgreint fyrir nokkuð mörgum árum sem Hekluskógar en hefur setið á hakanum um hríð. Var sótt mjög á að fá framlög til að geta haldið því áfram og hér er gerð tillaga um 10 millj. kr. tímabundið framlag til Hekluskóga í því skyni að auka útbreiðslu og endurheimt birkiskóga í samræmi við stefnumótun og áherslur stjórnvalda. Það er mjög ánægjulegt að þessu verkefni skuli vera ýtt aftur af stað með þessu framlagi og vonandi að því verði fylgt eftir á næstu árum.

Nokkur mál, eins og formaður fjárlaganefndar nefndi í umræðunni fyrr í dag, bíða til 3. umr. og eru enn í vinnslu og skoðun í nefndinni. Eitt af þeim, sem við ræddum töluvert í þinginu fyrir skömmu, eru löggæslumálin. Það er alveg ljóst, eftir yfirferð fjárlaganefndar með sveitarfélögunum hringinn í kringum landið, að löggæslan úti á landsbyggðinni er í erfiðleikum. Í fámennum liðum hefur fækkun leitt til þess að erfitt er að manna vaktir og ekkert má út af bregða þannig að starfið nánast falli saman á tímum.

Til dæmis hefur staðan verið tekin á sýslumannsembættinu á Selfossi þar sem fyrir nokkrum árum voru 28 lögreglumenn en eru nú 24. Ef embættið þarf að vinna á uppsöfnuðum halla þarf að fækka enn frekar í liðinu sem á að sinna 15 þús. manna stóru samfélagi þar sem við bætast 10–20 þús. íbúar meira og minna allar helgar allan ársins hring — fyrir utan þá 700 þús. ferðamenn sem í gegnum svæðið fara á hverju einasta ári. Þarna verða að koma til fjármunir þannig að hægt sé að halda í horfinu og mæta uppsöfnuðum halla með framlögum frá Alþingi en ekki með því að fækka enn í fámennu liði.

Fleiri slík dæmi mætti nefna norðanlands og norðvestanlands og víðar þar sem eru stór og strjálbýl samfélög með fáum löggæslumönnum. Hæstv. innanríkisráðherra hefur talað fyrir því að til þurfi að koma 300 millj. kr. pottur til að mæta vanda grunnlöggæslunnar á landsbyggðinni. Ég tek undir það, og hef gert áður hér í ræðustóli, að við þurfum að leiða þetta mál til lykta fyrir 3. umr. fjárlaga.

Þetta er eitt af því sem við þurfum að skoða sérstaklega og var rætt á fundum fjárlaganefndar að yrði gert áður en 3. umr. færi fram. Eitt annað mál vil ég nefna sem mjög ánægjulegt og gott er að geta lagt fjármuni í: Hér er gerð tillaga um 12 millj. kr. framlag til Rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði til að efla starfsemi miðstöðvarinnar vegna tíðra jarðskjálfta á suðursvæðinu, þar sem hún er staðsett, og hlutverks hennar í tengslum við Almannavarnir, sem er náttúrlega mjög mikið. Þessi stofnun hefur skilað mikilvægu hlutverki á síðustu árum og miklum og merkilegum rannsóknum og hér eru lagðir til verulega auknir fjármunir til hennar þannig að hún ætti að geta sinnt verkefnum sínum betur en oft áður.

Þá er lagt til tímabundið framlag úr ríkissjóði að fjárhæð 800 millj. kr. til byggingar Húss íslenskra fræða. Er áætlað að framkvæmdakostnaður nemi 3,4 milljörðum og þar af verði hlutur ríkisins 2,4 milljarðar eða 70% en hlutur Háskóla Íslands um 1 milljarður. Þar af er miðað við 333 milljónir á árinu 2013 og verði sá hluti fjármagnaður með ráðstöfunarfé skólans frá Happdrætti Háskóla Íslands sem færist á tekjulið ríkissjóðs. Beinar greiðslur úr ríkissjóði vegna framkvæmdar á næsta ári nema því um 467 milljónum kr.

Búið er að hanna verkið og það er tilbúið til útboðs þannig að þetta er heilmikil framkvæmd. Hönnunarkostnaður nam um 300 millj. kr. og var sá hluti fjármagnaður með fjárveitingu á fjárlögum fyrir árið 2008. Heildarkostnaður er því áætlaður 3,7 milljarðar að hönnuninni meðtalinni. Um er að ræða verkefni úr fjárfestingaráætlun sem ég nefndi áðan. Þau eru fjármögnuð annars vegar með sérstakri tekjuöflun af veiðigjaldi á auðlindaarð sjávarútvegs og hins vegar með tekjum af arðgreiðslum og söluhagnaði af eignasölu.

Þar sem þessi tekjuöflun felur í sér nokkra óvissu, svo sem vegna afkomu sjávarútvegs- og fjármálafyrirtækja, er eðlilega gert ráð fyrir að framlögin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs. En það er gott að geta ýtt þessu stóra verkefni úr vör og þetta er eitt af stærstu verkefnunum á fjárfestingaráætlun.

Mikið hefur verið rætt um að sérstaklega þurfi að efla framhaldsskólastigið og verk- og starfsnám og hafa komið fram mjög róttækar tillögur í þá veru undanfarið. Í því sambandi má nefna að hér er lagt til að framhaldsskólar almennt, í óskiptum lið, fái 325 millj. kr. framlag til að styrkja rekstrargrundvöll sinn en á síðustu árum hefur staða margra framhaldsskóla þrengst nokkuð og umtalsverður halli myndast í rekstri margra þeirra þó að hann hafi verið lægri en í mörgum öðrum málaflokkum.

Í þessu sambandi gætir einnig áhrifa af því að með lögum um framhaldsskóla, sem samþykkt voru árið 2008, var komið á fræðsluskyldu fyrir alla 18 ára og yngri. Það hefur að sjálfsögðu leitt, sem betur fer, til fjölgunar nemenda yngri en 18 ára ásamt því að aukin fjölbreytni innan nemendahóps hefur kallað á fjölbreyttari þjónustu. Þá hefur fötluðum nemendum fjölgað við skólana, sem betur fer sækja þeir þangað í ríkari mæli og kostnaður vegna þjónustu við þá hefur aukist í samræmi við það.

Hins vegar eru ekki horfur á að nemendafjöldi í framhaldsskólum verði umfram forsendur fjárlaga þannig að hér er lagt til að skólarnir fái þetta til að bæta í sína starfsemi. Þá var það eitt af sérstökum vinnumarkaðsúrræðum á sínum tíma að opna framhaldsskóla fyrir þá sem áður höfðu hætt þar námi, til að fá fólk inn í skólana. Margir þeirra eru þéttsetnir og búið að nýta allar mögulegar leiðir til að taka á móti öllum þeim nemendum sem þangað sóttu — sem betur fer, enda hefur margoft verið sýnt fram á að hver nemandi sem bætir við sig ári í framhaldsskóla og lýkur þaðan prófi skilar miklum ábata út í samfélagið, bæði í sínu eigin lífi og svo til samfélagsins í heild sinni. Þannig að það er mjög gott að geta lagt til aukna fjármuni til framhaldsskólanna eins og hér er gert.

Þá er lagt til að 470 millj. kr. framlag verði veitt til Kvikmyndasjóðs til eflingar á framlögum til skapandi greina. Það er mjög kærkomin innspýting og fjárfesting í þeirri miklu sprotagrein sem kvikmyndagerðin er. Hún þurfti að sæta miklum skerðingum á tímabili og hér er svo sannarlega komið verulega til móts við greinina nú þegar svigrúm skapast til þess vegna fjárfestingaráætlunar. Þar er um að ræða eitt af verkefnunum sem sett voru á þá áætlun og ríkisstjórnin hefur kynnt og verða fjármögnuð, eins og áður sagði, með sérstökum hætti. Þetta aukna framlag til Kvikmyndamiðstöðvar Íslands og Kvikmyndasjóðs getur skipt miklu máli til að standa undir því.

Þá er lagt til 5 millj. kr. framlag til hækkunar Kvikmyndamiðstöðvar Íslands til að unnt verði að styðja frekar við það myndarlega og mikla framtak sem alþjóðlega kvikmyndahátíðin, alþjóðlegar hátíðir, heimildamyndahátíðir og stuttmyndahátíðir eru. Við fjölluðum sérstaklega um það í aðdragandanum og þetta varð niðurstaðan í því máli. Var mjög ánægjulegt að geta mætt því.

Annað verkefni sem er ekki stórt í sniðum en skiptir máli fyrir menntun og menningu, og er sett hér inn fyrir 2. umr. og var í fjárlögunum í fyrra, er Tónlist fyrir alla og er gerð tillaga um 6 millj. kr. tímabundið framlag til þess verkefnis þannig að hægt sé að halda því metnaðarfulla og ljómandi vel heppnaða verkefni áfram.

Margt annað má nefna menningartengt: 15 millj. kr. hækkun á framlagi samnings við Akureyrarbæ um menningarstarfsemi vegna endurnýjunar á menningarsamningi við bæinn. Þá er gerð hér 6 millj. kr. tímabundin hækkun á framlagi til Listahátíðar í Reykjavík vegna endurnýjunar á samningi og ríki og Reykjavíkurborg standa sameiginlega að rekstri þeirrar hátíðar.

Þannig mætti lengi telja upp mörg góð og þörf samfélagsleg málefni í menningu, menntun og velferðarþjónustu sem eru hér lögð til inn í fjárlögin við 2. umr., og er þá ekki allt talið. Ég vildi líka nefna annað atriði: Lögreglustjóraembættið á Suðurnesjum lagði mikla áherslu á að fá auknar fjárheimildir til að mæta þeim mikla farþegafjölda sem fer um Keflavíkurflugvöll. Farþegum hefur fjölgað frá árinu 2009 og árið 2011 var fjölgunin það ár eitt og sér um 18%. Í ár er gert ráð fyrir að þessi fjölgun verði um 10%.

Frá árinu 2009 hefur hlutfall farþega til og frá löndum utan Schengen hækkað úr 38% í rúmlega 42% af heildarfjölda farþega um völlinn. Þegar horft er til framtíðar er ljóst að þetta hlutfall mun ekki fara lækkandi miðað við áform flugrekstraraðila. Við kölluðum þessa aðila sérstaklega á fund allsherjar- og menntamálanefndar í haust til að fara yfir þessa stöðu þar sem þau lögðu áherslu á að fá auknar fjárheimildir til að bæta í sinn rekstur þarna og koma í veg fyrir að biðraðir myndist og ófremdarástand skapist. Nýir áfangastaðir munu opnast í beinu flugi árið 2013 og þá er gert ráð fyrir auknu flugi til og frá Kanada á næstu árum, til viðbótar við aukið flug til Bandaríkjanna og Bretlands, allt svæði utan við Schengen.

Farþegaspár fyrir völlinn gera ráð fyrir að farþegar til og frá löndum utan Schengen verði orðnir 1.632 þús. árið 2018 samanborið við eina milljón liðlega árið 2011 sem svarar til 55% aukningar. Þannig gerir spáin ráð fyrir 7% aukningu á milli ára til ársins 2016. Tvö síðustu ár hafa verið mjög erfið í landamæravörslu á vellinum vegna mannfæðar og fyrir liggur að lögreglan mun ekki geta annað auknum umsvifum nema fjölgað verði störfum í flugstöðvardeild embættisins.

Ég nefndi áðan að miklum fjármunum er varið á fjárfestingaráætlun til nýs fangelsis á Hólmsheiði og þá er lagt hér til næst framlag til öryggisfangelsis á Litla-Hrauni en 50 milljónir kr. voru veittar í fyrra til að bæta öryggisaðstöðu í kringum fangelsið. Hér er lagt til annað eins, plús 8 millj. kr. til að bæta við stöðugildi fangavarðar til að annast öryggisgæslu sem stórbatnar; þeir eru afskaplega vel nýttir þeir fjármunir sem þarna eru lagðir til. Ég held að það sé mikið fagnaðarefni að hægt sé að bæta þarna ár frá ári alla aðstöðu og umbúnað um leið og nýtt fangelsi, sem tekur við af fangelsum hér á höfuðborgarsvæðinu, er reist uppi á Hólmsheiði.

Stóru línurnar eru þær sem ég nefndi í upphafi míns máls að staðan í ríkisfjármálum hefur tekið þátta- og stakkaskiptum, jafnvægi hefur verið náð og erfiðu niðurskurðartímabili lokið. Hér er því hægt að ráðast í brýn samfélagsleg málefni og miklar fjárfestingar í innviðum samfélagsins upp á nýtt.

Ég hef tæpt á örfáum þeirra og mætti hafa langt mál um ýmis fleiri umbótamál sem hér er lagt til að verði að veruleika. Eins og fram hefur komið bíða nokkur mál 3. umr. fjárlaga eins og löggæslumálin sem ég nefndi áðan.