141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:00]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin um löggæslumálin. Ég er sammála honum um að vandinn er auðvitað alvarlegastur hjá fámennari embættunum þar sem fækkun um einn mann getur gersamlega riðlað öllu starfinu.

Ég verð hins vegar að taka fram að staða stærri embættanna, þar á meðal á höfuðborgarsvæðinu, er líka slæm hvað það varðar. Það er líka mikilvægt að gengið verði í að bæta úr því. Vonandi getur hv. þingmaður útskýrt fyrir mér af hverju það hefur vafist svona fyrir meiri hlutanum í fjárlaganefnd að koma með tillögur í þeim efnum. Mér vitanlega hafa komið tillögur frá innanríkisráðuneytinu. Mér vitanlega hefur umræðan átt sér stað mánuðum saman. Það er ekki eins og sá vandi hafi átt sér stað eða komið upp núna í nóvember. Þetta er búið að liggja á borðinu mánuðum saman og hefur verið til umræðu hérna mánuð eftir mánuð og hv. þingmaður hefur meðal annars tekið þátt í þeirri umræðu og lagt gott til málanna.

Þess vegna hefur það verið mér alveg óskiljanlegt að ekki væri hægt að koma til móts við þær þarfir með frekari fjárframlögum og alveg furðulegt að tillöguflutningur þar um hafi dregist jafnmikið og raun ber vitni. Á sama tíma er verið að flytja tillögur um alls konar verkefni sem ég verð að leyfa mér að segja að eru síst merkilegri. Ég hef vissulega trú á mörgum þeim verkefnum sem nefnd eru í svokallaðri fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, það eru mörg ágæt verkefni þar. Þau eru ekki öll brýn, langt í frá. Þau munu ekki öll skila tekjum, langt í frá.

Ég verð að segja, hæstv. forseti, að meðan menn treysta sér til að leggja til mörg hundruð milljónir í verkefni, sem mér liggur við að segja að séu gæluverkefni en hafa á sér einhverja græna slikju og njóta einhverrar pólitískrar velvildar af þeim sökum, (Forseti hringir.) finnst mér óskiljanlegt að menn geti ekki komið til móts við brýnar þarfir og ákall um bætta löggæslu.