141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:03]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er alveg rétt að það má lengi velta fyrir sér forgangsröðun hlutanna í ríkisfjármálagerð en auðvitað reynum við að ná sæmilegu jafnvægi á milli einstakra þátta. Ég get til dæmis nefnt sérstaklega mál sem ég tel mjög brýnt og er byggðamál, umhverfismál og margt annað í senn og það er þekkingarsetrið á Kirkjubæjarklaustri, sem ég nefndi áðan. Þar eru lagðar til tæplega 300 millj. kr. í fyrsta áfanga af þremur. Það er svipuð upphæð og ég tel, og innanríkisráðuneytið hefur talað fyrir, að þurfi í óskiptan löggæslupott sem það deilir út til lögregluembættanna úti á landi til að koma í veg fyrir að ganga þurfi frekar á lögregluliðin þar. Ég held að það sé ekki spurning um eitt umfram annað. Það var hins vegar ákveðið að bíða með löggæslumálin til 3. umr. þar sem ekki var komin sérstök eða endanlega tillaga frá ríkisstjórn um það mál. Það má vel vera að hún hafi verið afgreidd út af ríkisstjórnarfundi núna áðan eða það verði gert á eftir þegar honum lýkur.

Það er alveg prýðileg samstaða um það í nefndinni að þar þurfi að taka á og bæta við. Þannig að í rauninni var það ekki spurning um hvort farið væri í að bæta stöðu almennu löggæslunnar úti á landi heldur hvað þyrfti mikla fjármuni, hvernig, hvað væri nóg og hverju sú upphæð kæmi nákvæmlega til leiðar. Eins og kom fram í ágætri umræðu utan dagskrár rétt fyrir 2. umr., þegar hv. þm. Jón Gunnarsson ræddi við innanríkisráðherra um hver staða löggæslumálanna væri, hefur margt mjög gott verið gert þar. Við samþykktum líka vorið sem leið að framlengja sérstakt átak gegn skipulagðri glæpastarfsemi þar sem lögreglan hefur náð frábærum árangri. Ég held að það sé alveg prýðileg samstaða um að sá löggæslupottur komi til fyrir 3. umr. en það var bara einfaldlega ekki búið að (Forseti hringir.) vinna málið áður en tillögur til 2. umr. voru kláraðar.