141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:54]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir framlag hans til fjárlagaumræðunnar og það góða samstarf sem við höfum átt í hv. fjárlaganefnd.

Mér fannst hv. þingmaður nokkuð gáttaður á því hvernig þessi ríkisstjórn tók við stöðu mála. Menn geta ekki leyft sér það að mínu viti vegna þess að það þurfti að taka til í ríkisranni eftir hrunið mikla, það þurfti að beita ríkissjóð aðhaldi, það þurfti hagræðingu, það þurfti að afla nýrra tekna. Það var ekki einfaldlega hægt að ætlast til þess að fyrirtækin í landinu færu á fullan skrið á nýjan leik ofurskuldsett langflest og með böggum hildar.

Það er rétt hjá hv. þingmanni að við þurfum að beita okkur aga á næstu árum, næstu missirum, til þess að fara ekki aftur að eyða um efni fram, það er mjög mikilvægt. Við þurfum að taka á vaxtamálum sem verður ella ekki breytt í velferð.

Mig langar að inna hv. þingmann eftir því hvar hann vill staldra við þegar og ef kemur til niðurskurðar. Mér heyrist að sjálfstæðismenn vilji, ef þeir komast til valda, skera niður enn frekar til þess að ná vöxtunum niður og hvar á þá að gera það? Í velferðarráðuneytinu, sem tekur jú stærstan hluta af ríkistekjunum, um 233 milljarða, í mennta- og menningarmálaráðuneytinu sem tekur 66 milljarða, í innanríkisráðuneytinu sem tekur 66 milljarða sömuleiðis, samtals 366 milljarðar af 580 milljarða kr. tekjum ríkissjóðs, bara þessi þrjú ráðuneyti? Eigum við að henda burt Fæðingarorlofssjóði upp á 7,8 milljarða? Eigum við að henda út þjóðkirkjunni upp á 1,6 milljarða? Eigum við að henda út Hörpunni (Forseti hringir.) fyrir 564 milljónir? Hvar eigum við að skera niður? Það væri ágætt að heyra það úr munni þingmanna Sjálfstæðisflokksins.