141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[18:58]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Sjálfstæðismenn biðja um meiri framkvæmdir. En ef stungið er upp á meiri framkvæmdum er það gagnrýnt. Sjálfstæðismenn verða að vera sjálfum sér samkvæmir og ekki eilíflega að gagnrýna það sem þeir eru sjálfir að biðja um.

Ég sagði það fyrr í dag við fjárlagaumræðuna að heilbrigðisstofnunum úti á landi hafi að vissu leyti verið hlíft miðað við það sem gerðist í Reykjavík. Helsti niðurskurðurinn í heilbrigðismálum fór fram á Landspítalanum þar sem vissulega var af mestu að taka, stofnunin ver 35 milljörðum kr. árlega til sinna mála. Þar er vitaskuld af meiru að taka, uppsafnaður niðurskurður hjá Landspítalanum er um 23% á meðan hann er 17% hjá stofnunum úti á landi, þannig að þeim var hlíft. Auðvitað var ömurlegt og leiðinlegt og sárgrætilegt að þurfa að taka þátt í þessum niðurskurði. En það varð að gera það og við erum sammála um að ástæðan fyrir því að nauðsynlegt var að fara í þessa hagræðingu er einfaldlega sú að við viljum ekki borga of mikla vexti inn í framtíðina. Þessum vöxtum á að breyta í velferð.

Ég verð engu að síður að inna hv. þm. Ásbjörn Óttarsson eftir frekari svörum við því hvar sjálfstæðismenn vilja skera niður, hvaða þætti báknsins vilja þeir burt til þess að geta tekið á vaxtavandanum? Hv. þingmaður nefnir heilbrigðismálin, hann biður um að þeim verði hlíft. Gott og vel, þar erum við að mörgu leyti sammála, en hvar á þá að skera niður annars staðar? Launasjóður listamanna 506 millj. kr., ég nefni hann sem dæmi, en hvar annars staðar? Það dugar nú ekki upp í nös á ketti. Hvar annars staðar?

Það er mjög mikilvægt í þessari umræðu, þegar líður á kosningavetur, að heyra skoðanir flokkanna um það hvernig þeir ætli að taka á ríkisfjármálavandanum, vegna þess að hann er enn ekki leystur, (Forseti hringir.) verður sennilega aldrei leystur.