141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[19:04]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir andsvarið. Ég fór ágætlega yfir agann í ríkisfjármálunum og hvernig niðurstaðan hefði verið en ég á eftir að halda fleiri ræður og mun þá flytja sérstaka ræðu um þetta, sem er auðvitað hárrétt ábending hjá hv. þingmanni. Það er dregið upp í áliti okkar, áhyggjurnar af þessu með hvernig niðurstaðan af ríkisreikningi er.

Hv. þingmaður nefndi tvö sl. ár og ég sagði áðan í ræðu minni: Ég lít orðið á fjárlög sem væntingar og það er orðið einhvern veginn sjálfgefið að hafa innbyggðan halla í fjárlögum sem er vitað af. Það er vitað af innbyggðum halla, en samt er hann hafður, það er ekki tekið á honum. Þetta á við um margar, margar stofnanir. Sú sem ég man eftir í augnablikinu sem er með mestan uppsafnaðan halla er með 3 milljarða, bara ein stofnun, Landspítalinn. Þetta er allt innbyggt inn í kerfið og það er ekki tekið á því. Sumar stofnanir eru meira að segja þannig að fjárframlagið þeirra er jafnmikið í mínus í höfuðstól á ríkisreikningi eins og heildarframlagið til stofnunarinnar er. Það á í raun og veru bara að læsa öllu 1. janúar, bang. Þetta er sama sagan, þetta er blekking og við verðum að hætta þessu.

Hv. þingmaður nefndi niðurstöðu ríkisreiknings og fjárlaga. Á síðustu tveimur árum, 2011 og 2010, við skulum ekkert fara aftar, og ég tók það einmitt í minni ræðu áðan að þá var gert ráð fyrir því að hallinn á ríkissjóði, t.d. 2010, yrði 70 milljarðar. Niðurstaðan var 123 milljarðar, 53 milljarðar umfram. Á árinu 2011 var gert ráð fyrir að það yrðu 46 milljarðar en niðurstaðan var 89 milljarðar, þar eru 43 milljarðar til viðbótar. Við erum því að tala um tæpa 100 milljarða í mínus í niðurstöðu ríkisreiknings og fjárlaga á síðustu tveimur árum. Það er því auðvitað gríðarlega mikilvægt að við horfum á þetta verkefni sem fram undan er og reynum að einhenda okkur í að leysa það með þeim hætti sem verður að gera.