141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:02]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður ætti nú að vera það þingreyndur að vita að ekki eru öll kurl komin til grafar í þeim efnum og til þess höfum við 3. umr. við fjárlög. Það hefur einmitt verið boðað, bæði af formanni hv. fjárlaganefndar og hér í umræðunum, að þar yrði tekið á tilgreindum málum.

Tilgangur minn var að koma í ræðustól og tilgreina þau atriði sem ég tel að standi verulega út af. Það er áskorun mín til fjárlaganefndar sem fær málið milli 2. og 3. umr. og þingmanna í umræðunni að taka undir og árétta þannig að það geti þá skilað sér við 3. umr. Það var tilgangur minn og við skulum bara vona að við 3. umr. verði tekið á málunum sem ég hef nefnt.