141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:08]
Horfa

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það er einmitt þess vegna sem við komum hér upp í ræðustól, til að halda fram skoðunum okkar og viðhorfum.

Ég ber fulla virðingu fyrir því að hv. þm. Pétur H. Blöndal hafi allt aðra skoðun á forgangsröðun en ég og að hann komi í ræðustól og tali fyrir þeirri forgangsröðun og þeim atriðum sem hann leggur áherslu á. Ég tala fyrir áhersluatriðunum sem ég vil koma að í umræðunni og það hef ég gert.

Varðandi stöðu ríkissjóðs sem hv. þingmaður minntist á þá viðurkenni ég alveg að hún þyrfti að vera betri. (Gripið fram í.) Hún er þó það góð að hægt er að leggja fram fjárlög þannig að hægt sé að standa að ákveðinni grunnvelferðarþjónustu sem gert er ráð fyrir. Auðvitað viljum við fá meira fjármagn til þess og ég vona að ríkissjóður verði enn þá sterkari. Við komum einmitt hingað til að ræða forgangsröðun (Forseti hringir.) og það er það sem ég hef gert.