141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:13]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Við erum svo sem miklir skoðanabræður í því að auðvitað þarf að koma málum á hreint gagnvart þeim stofnunum sem um ræðir.

Hv. þingmaður náði reyndar ekki að svara síðustu spurningu minni sem snýr að því að á sama tíma og við erum að ræða málin með þessar grunnstofnanir í uppnámi skuli verið að setja 500 millj. kr. í að opna eina sýningu í Reykjavík. 500 millj. kr. er margfalt það fjármagn sem þarf. Því vil ég spyrja hv. þingmann aftur að því sem hann náði ekki að svara, hvort hann sé ekki sammála mér um að á meðan ástandið er svona er það algjört bruðl og vitleysa.

Ég vil líka gefa hv. þingmanni tækifæri til að tjá sig um það að síðustu helgi var byrjað á því að loka Heilsugæslustöðinni í Snæfellsbæ aðra hverja helgi til að spara örfáa þúsundkalla eða tugi þúsunda. Á sama tíma er ríkisstjórnin að fara í svona vegferð. Ég vil spyrja hv. þingmann um skoðun hans á því máli.