141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:16]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf):

Virðulegi forseti. Það er um margt ólíkar aðstæður sem Alþingi stendur nú frammi fyrir við umræður um fjárlög fyrir árið 2013 og afgreiðslu fjárlaga sem bíður okkar á næstu dögum en þær aðstæður sem þingið hefur staðið frammi fyrir undanfarin þrjú ár. Hvers vegna skyldi staðan vera sú að við erum hér í mjög breyttu umhverfi að mörgu leyti og við breyttar aðstæður frá því fyrir einu, tveimur, þremur árum? Hvers vegna skyldi afstaðan vera þessi í ræðum meiri og minni hluta í þingsal við umræðurnar í dag? Endurspeglast staðan ekki í óskinni, væntingunum og kröfunni um aukin framlög til hinna margvíslegu málaflokka, í þjónustu, í framkvæmdum, í uppbyggingu, í nýjungum og hverju sem telja má? Jú, er það ekki vegna þess að við höfum náð árangri? Er það ekki vegna þess að það hefur tekist að koma ákveðnum böndum á þá skelfilegu stöðu ríkissjóðs sem samfélagið stóð frammi fyrir eftir hrun?

Hér hafa fallið mörg þung orð í umræðum undanfarinna ára um niðurskurð, atlögu að grunnstoðum samfélagsins, heilbrigðisþjónustu og annarri velferð. Menn hafa tínt til dæmi úr ýmsum áttum. Það er auðvitað margt sem má til sanns vegar færa því að við höfum skorið niður og víða inn að beini. Þjóðin hefur fundið fyrir því, ekki bara á landsbyggðinni heldur um land allt. Það hefur tekið á að ganga í gegnum þær þrengingar og erfiðleikana sem við höfum staðið frammi fyrir.

Við fengum líka þau heilræði frá ráðamönnum erlendis frá, sem þekktu til slíkra mála, höfðu gengið í gegnum slíkar sviptingar, eins og frá Göran Persson sem var gestur hjá okkur hér á dögunum. Hann sagði þegar hann kom hingað stuttu eftir að hrunið hafði átt sér stað að menn yrðu að þora að horfast í augu við veruleikann og taka á vandanum strax, það yrðu engin vandamál leyst með því að bíða og bíða og halda að málin leystust af sjálfu sér. Það væri sársaukaminnst að ganga strax í harðar aðgerðir með niðurskurði, hagræðingu, uppstokkun og endurskoðun á hlutskipti okkar ef við ætluðum að komast í gegnum þessi erfiðu mál fyrr en síðar. Það var gert. Þeim sem hafa staðið í fararbroddi fyrir þeim verkum hefur minnst verið fagnað og þakkað fyrir þeirra hlut, líkt og þeim sem tekur til eða sér um uppvaskið er sjaldnast þakkað fyrir að halda heimilinu hreinu. Þessi verk varð að vinna og við erum að uppskera í samræmi við það.

Því göngum við nú inn í umræður um fjárlög á allt öðrum forsendum og allt öðrum nótum en við höfum gert undanfarin ár. Það þýðir ekki að allur vandi sé fyrir bí og ekki sé við neitt að etja sem ástæða sé til að hafa áhyggjur af, langt því frá. Við verðum hins vegar að horfa á það af sanngirni að við erum í annarri stöðu og við getum leyft okkur að horfa til ýmissa hluta sem við höfðum ekki nokkurt svigrúm til fyrir einu, tveimur, þremur árum.

Það er allt útlit fyrir að við náum jákvæðum frumjöfnuði í rekstri á næsta ári. Frumvarpið gerir ráð fyrir því að frumjöfnuður verði jákvæður um rúmlega 60 milljarða. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir því að heildarjöfnuður verði neikvæður um aðeins tæpa 3 milljarða á næsta ári. Það er auðvitað mjög mikilvægt að geta náð árangri í þá veru með fjárlagafrumvarp sem er byggt á þeim forsendum að það geti staðið. Við skulum ekki loka augunum fyrir því að ýmis erfið vandamál blasa við, óleystir hlutir, en við höfum verið að sigla skútunni í rétta átt.

Greiðsluuppgjör ríkisins fyrir fyrstu tíu mánuði ársins sýnir að handbært fé frá rekstri hefur batnað á milli ára, var neikvætt um 37 milljarða kr. samanborið við nærri 59 milljarða á sama tímabili á síðasta ári. Tekjur reyndust rúmlega 40 milljörðum hærri en á sama tíma í fyrra, meðan gjöldin jukust um 15,6 milljarða. Þetta er betri niðurstaða en í áætlunum þar sem gert var ráð fyrir því að handbært fé frá rekstri yrði neikvætt um rúma 56 milljarða.

Eins og ég nefndi áðan er það auðvitað mikið fagnaðarefni að við erum að sigla í rétta átt. Við erum að skapa svigrúm til framfarasóknar og aukinnar velferðar. Þetta er árangur af markvissri og skynsamlegri vinnu og ábyrgri stefnu í fjármálum. Það er miður að ekki hafi verið meiri samstaða um þau verk sem við höfum þurft að ganga í því að ég er sannfærður um að ef þingheimur hefði staðið betur saman og farið saman í gegnum þá skafla sem við höfum þurft að vaða á undanförnum árum þá værum við í enn betri stöðu í dag en raun ber vitni. Mikill tími hefur farið í þjark og þref. Við höfum tapað dýrmætum tíma í óþarfa málalengingar og átök um eitthvað sem skipti minnstu máli í staðinn fyrir að einblína saman á þau verk sem þarf að vinna. Engu að síður hefur okkur tekist að vinna okkur nokkuð hratt og örugglega upp úr þessum djúpa öldudal. Við höfum sótt tekjur til þeirra sem hafa haft eitthvað aflögu og varið stöðu þeirra sem lakar eru settir. Þessi íslenska leið hefur sannað sig og er horft til hennar sem mikilvægrar fyrirmyndar víða um lönd þar sem þjóðir takast á við erfiðleika af sömu stærðargráðu eða jafnvel enn þyngri en þá sem við þurftum að glíma við.

Þróunin hefur verið skýr og meira og minna öll í sömu átt. Það sýna hagtölur sem við höfum horft til síðustu mánuði og missiri. Landsframleiðsla fyrstu sex mánuði þessa árs jókst um 2,4% að raungildi borið saman við fyrstu sex mánuði ársins 2011, á sama tíma jukust þjóðarútgjöld um 4,2%. Einkaneysla jókst um 4% og fjárfesting um 19,3% og atvinnuvegafjárfesting um 27,1%, þar af íbúðafjárfesting um 7,7%. Samneysla dróst hins vegar saman um 0,7%. Útflutningur jókst um 4,9% en innflutningur um 8,8%. Þar erum við auðvitað að glíma við ákveðinn vanda. Landsframleiðslan jókst um 2,6% að raungildi árið 2011, samkvæmt endurskoðuðum þjóðhagsútreikningum Hagstofunnar. Sá vöxtur kemur í kjölfar mikils samdráttar árin þar á undan, eða heil 4% á árinu 2010 og 6,6% á árinu 2009.

Menn hafa rætt hér um svigrúm og möguleika varðandi hagvöxt og litið til þeirra spátalna sem stofnanir hafa birt að undanförnu. Samkvæmt þeim spám sem nýjastar eru spáir Seðlabankinn 2,5% hagvexti í ár en Hagstofan 2,7%. Seðlabankinn spáir 2,9% hagvexti á næsta ári, Hagstofan 2,5%. Seðlabankinn spáir 3,5% hagvexti á árinu 2014 og Hagstofan 2,9%. Allar þessar tölur eru innan eðlilegra marka varðandi viðmið og er rétt að horfa til þeirra sem slíkra, en það sem skiptir þó meira máli er að þær vísa allar í rétta átt. Við erum á stöðugri siglingu í rétta átt. Það er auðvitað það sem skiptir máli.

Maður heyrir það hér í umræðunni að margir stjórnarandstæðingar telja að ekki sé nóg að gert, þörf sé á að keyra hagvöxtinn enn hraðar upp og ná enn meiri drifkrafti út úr samfélaginu með þeim hætti. Það má alveg taka undir þær væntingar, en við verðum að horfa til þeirrar stöðu sem við erum í og hve raunhæft er að sækja fram í þeim efnum, horfa til stöðunnar í atvinnumálum þar sem við höfum þó verið að ná mjög mikilvægum árangri. Atvinnuleysi hefur stöðugt farið niður á við og við sjáum fram á að geta verið komin með atvinnuleysi niður fyrir 4% á næsta ári, horfandi til þess að við höfum verið að takast á við aðstæður og ástand í atvinnumálum sem á sér í raun og veru enga hliðstæðu í þjóðarsögu okkar.

Kaupmáttur launa hefur á síðustu tveimur árum aukist um rösklega 4% og enn meira hjá þeim sem hafa lægstu launin. Samkvæmt tölum Hagstofunnar hækkuðu laun um 9,2% milli annars ársfjórðungs 2011 og sama tíma í ár og laun á almennum vinnumarkaði hækkuðu um 9,3%. Þetta eru mjög gleðilegar og mikilvægar tölur miðað við það ástand sem við höfum verið að takast á við í samfélaginu. Það sýnir sig líka af álagningartölum ríkisskattstjóra vegna ársins 2011 að það hefur orðið algjör viðsnúningur í afkomu heimilanna, verðmæti fasteigna hefur verið að aukast og skuldir heimilanna að minnka, samkvæmt skattframtölum.

Virðulegi forseti. Það hafa skapast tækifæri til nýrrar sóknar. Við skulum samt ekki horfa fram hjá því að vandinn sem við stöndum frammi fyrir í dag felst ekki síst í því að skuldir ríkissjóðs eru gríðarlega miklar. Mér dettur ekki í hug að reyna að halda öðru fram, enda blasa staðreyndirnar við. Fjármagnskostnaðurinn er mikill að sama skapi. Vaxtagjöld á næsta ári eru þó áætluð minni en á þessu ári, eða um 94 milljarðar kr. Lykilatriðið er að skuldir sem hlutfall af vergri landsframleiðslu eru í raun að lækka í fyrsta sinn frá hruni. Það er ekki síður mikilvægur áfangi. Það er búið að ná jafnvægi milli útgjalda og tekna og með aðhaldssamri ríkisfjármálastefnu í kjölfar bankahruns hefur það skilað markverðum árangri allt þetta kjörtímabil.

Í þessu samhengi er rétt að rifja upp fyrir þeim sem eru kannski búnir að gleyma hver staðan í ríkisfjármálunum var á árinu 2008, þegar fjárlagahallinn var upp á 216 milljarða kr., að hallinn var kominn í 140 milljarða ári síðar 2009, 120 milljarða á árinu 2010, tæpa 90 milljarða í fyrra og er áætlaður um 20 milljarðar á þessu ári. Við stefnum að því að ná nánast jöfnuði í þessum efnum með fjárlagafrumvarpi árið 2013.

Við verðum auðvitað að horfa á alla þessa hluti í samhengi og hvert verkefnið hefur verið. Lykilverkefnið hefur verið að ná jafnvægi í fjárlagadæminu sjálfu, ná hér niður á þriðja hundrað milljarða fjárlagahalla. Það er afrek að hafa náð því fram sem blasir við í þeim efnum. Eins og ég nefndi áðan eru ýmis önnur verkefni sem taka við og bíða í framhaldinu. Um leið og hafa skapast aðstæður til þess að hafa tekjuafgang af rekstri verður svigrúm til að setja fjármuni í það sem þörfin kallar á.

Ég hef ekki heyrt annað í umræðunni hér í dag en að þingmenn úr öllum flokkum kalli eftir auknum framlögum í velferð og þjónustu og atvinnuuppbyggingu í landinu. Við hljótum að vera sammála um að það séu þau forgangsverkefni sem við þurfum að horfa til. Okkur getur greint á um einstaka liði í þeim efnum, hvort eigi nákvæmlega að fara í þessa framkvæmd eða einhverja aðra og hvernig eigi að deila út fjármunum til styrkingar og eflingar á grunnstoðum velferðar okkar, en við erum loksins eftir hrun í þeirri stöðu í dag að hafa svigrúm og getu til þess, sem við höfum ekki haft undanfarin þrjú ár, að bæta við og setja fjármuni í velferð, í atvinnuuppbyggingu og í framkvæmdir í stað þess að standa hér blóðug upp fyrir axlir í niðurskurði á þeim þáttum sem enginn hefur óskað sér að þurfa að takast á við með þeim hætti sem við urðum þó að gera. Þetta er auðvitað algjör viðsnúningur á þeirri stöðu sem þingið hefur staðið frammi fyrir.

Ég geri mér alveg grein fyrir því, og auðvitað þingheimur allur, að það eru líka önnur verkefni sem þjóðin þarf að takast á við, eins og að greiða niður þann skuldapakka sem fylgir þeirri stöðu sem við höfum þurft glíma við undanfarin ár. Hann greiðist ekki niður af sjálfu sér. Það þarf að skapa tekjur og afgang af rekstri ríkissjóðs til að ganga í þau verk. Við þurfum að setja skýra og markvissa áætlun um það hvernig við göngum til þeirra verka. Ég tek undir þær tillögur sem hafa verið nefndar hér, að ríkissjóður og ríkisvaldið þurfi að setja sér skýrar fjármálareglur og viðmið í þeim efnum. Ef við teljum okkur vera færa um að setja sveitarfélögum landsins það viðmið sem á að gilda á þeim bæjum varðandi fjármálarekstur og ákveðin gildisviðmið í fjármálum og skuldsetningu og rekstri þá hlýtur sama gildismat að eiga að vera uppi á borðum gagnvart rekstri ríkissjóðs. Það verður að ná fram aga og festu í ríkisfjármálum þannig að stjórnvöld hverju sinni, hver svo sem þau eru, starfi innan þess ramma sem við höfum komið okkur saman um að sé eðlilegur og skynsamlegur. Auðvitað er svigrúm í slíkum ramma til að fara fram með ákveðna stefnumörkun, hvort heldur er í framkvæmdamálum, skattamálum eða með öðrum hætti. Það ákveða stjórnvöld hverju sinni, en ramminn þarf að vera nokkuð skýr og markviss að öðru leyti til að tryggja að við höldum utan um rekstur ríkissjóðs af ábyrgð og festu.

Ég kalla líka eftir sanngirni í umræðunni, sanngirni í því hvernig við ræðum um þá stöðu sem er uppi í ríkisfjármálum horfandi til þeirra aðstæðna sem við höfum verið að takast á við. Í hvaða verkum hafa stjórnvöld staðið undanfarin ár og þingheimur allur? Hvers vegna var gripið til harkalegra aðgerða? Hver er uppskeran og árangurinn af því sem við höfum þurft að ganga í gegnum? Hvar stöndum við í dag og hver eru okkar næstu verkefni?

Það hefur verið gagnrýnt hér í umræðunni að stjórnvöld hafi ekki bara sett milljarða í velferð, eins og barnabætur, húsnæðisstuðning, fæðingarorlof, heilbrigðiskerfið og aðra velferðarþjónustu sem við viljum bjóða núna og gefa okkur svigrúm til að byggja upp, heldur hafi líka verið lögð fram ákveðin útfærð fjárfestingaráætlun til að ýta undir meiri breidd í íslensku atvinnulífi. Ég hef heyrt þá gagnrýni að þetta sé eyðslufjárfestingarstefna sem muni ekki skila einu eða neinu. Við erum auðvitað að reyna að marka breiðari vídd í atvinnusköpun samfélagsins og horfa til framtíðar í þeim efnum þannig að við séum ekki bundin á klafa við atvinnulíf í þrengstu skilgreiningu, eins og við höfum lifað við á umliðnum árum og áratugum, heldur horfum til víðsýni og breiddar í þeim efnum þar sem vaxtarsprotar, tækifæri og möguleikar skapa nýjar tekjur fyrir samfélag okkar. Þannig skapast svigrúm til þess að ná nýju fjármagni í velferð og til að mæta þeim kostnaði sem við stöndum frammi fyrir vegna skuldsetningar þjóðarbúsins. Þetta snýst um sóknarleik á breiddina, að spila á alla breiddina í tækifærum okkar til að sækja fram.

Mér finnst þingmenn Sjálfstæðisflokksins boða hér í umræðunni áherslur á eitthvað allt annað en við, þar sem fyrst og fremst er rætt um fagnaðarerindið um lækkun skatta sem maður getur ekki lesið öðruvísi út frá viljayfirlýsingum forráðamanna atvinnulífsins en að beinist að hátekju- og stóreignafólki. Forustumaður og formaður Sjálfstæðisflokksins hefur lýst því héðan úr ræðustóli að það sé engin innstæða fyrir auknum framlögum til velferðar og þjónustu við barnafólk og þá sem minnst mega sín. Sjálfstæðisflokkurinn hefur lýst því yfir að eina raunhæfa leiðin til að vinna hratt úr skuldavandanum samhliða því að lækka skatta sé að skera niður í ríkisbúskapnum. Gott og vel, þá skulum við bara leggja öll spilin á borðið og ræða allar þær niðurskurðartillögur. Hvaða þjónustu, hvaða velferð, hvaða starfsemi, hvaða stofnanir og hvaða rekstur er undir í þeirri umræðu? Ef menn ætla að fara þá leið verður auðvitað að leggja allt upp á borðið sem máli skiptir í þeim efnum.

Frumvarp til fjárlaga árið 2013 ber með sér nýja stefnumörkun og nýjar áherslur ríkisstjórnarinnar í atvinnumálum. Þar er verið að auka framlög til samgöngumála um 2,5 milljarða kr. í samræmi við fjárfestingaráætlunina sem ég minntist á hér áðan. Það er verið að auka framlög til samkeppnissjóða og setja 1 milljarð í endurgreiðslur til fyrirtækja sem stunda rannsóknir og þróun og 1,3 milljarða til að styrkja rannsóknir og tæknisjóði. Allt eru þetta liðir í því að ýta undir og efla nýsköpun og ný sóknarfæri í atvinnulífi okkar. Það er áhersla á nýsköpun og þekkingariðnað að virkja hugvit landsmanna enn frekar og styrkja nýsköpun í atvinnulífinu, skjóta styrkari stoðum undir framtíðarhagkerfi okkar og vera ekki með öll eggin í sömu körfunni eins og hefur því miður allt of lengi verið ráðandi hugsunarháttur í atvinnuuppbyggingu hér á landi.

Við erum að sækja fram og styrkja á ný þá þætti velferðarkerfisins sem urðu fyrir niðurskurði eftir hrunið 2008. Það er verið að stórauka framlög til barnafjölskyldna með barnabótaviðbót upp á 2,5 milljarða kr., með tæpum 1 milljarði í styrkingu fæðingarorlofskerfisins og með 1 þús. millj. kr. viðbótarframlagi í húsaleigubætur til þess hóps sem hefur staðið verst að vígi, með þyngstu byrðarnar á húsnæðismarkaðnum, og vill oft gleymast í umræðunni þegar við ræðum þann mikla húsnæðisvanda sem samfélagið hefur staðið frammi fyrir og auknum kostnaði. Við höfum verið upptekin, alls ekki að ósekju, vegna þess að vandi hefur blasað við mörgum sem hafa farið illa út úr hruninu með eigið húsnæði. En sá hópur sem hefur verið á leigumarkaði hefur búið við þyngstu aðstæðurnar og þurft að bera mesta kostnaðinn varðandi húsnæðismál undanfarin ár. 1 þús. millj. kr. framlag til viðbótar í húsaleigubótakerfið mun hafa veruleg áhrif til að tryggja þeim sem hingað til hafa ekki átt nokkurn kost á stuðningi vegna húsnæðiskostnaðar síns tækifæri til að ráða betur við framfærslu sína og styðja og styrkja við aðrar fjölskyldur sem hafa verið með takmarkaðan rétt í húsaleigubótakerfinu.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að halda hér ræðu fram eftir öllu kvöldi þó að ég hafi leyfi til að tala í lengri tíma. Mér finnst það skipta máli að menn noti tíma sinn til að koma á framfæri þeim lykilatriðum sem snúa að þessum málum og að fleiri komist að í umræðunni.

Ég vil að lokum segja: Það fjárlagafrumvarp sem við erum með í höndum fyrir árið 2013 er fagnaðarefni. Nú eru kaflaskil og við horfum til nýrrar og bjartari framtíðar. Vissulega eru ýmis mál óleyst sem hafa komið upp í umræðunni og blasa við okkur sem viðfangsefni fyrir afgreiðslu 3. umr., Íbúðalánasjóður og ýmsir aðrir þættir sem við eigum enn eftir að takast á við og eru afleiðingar af hruninu sem enn eru að koma upp á yfirborðið og við munum þurfa að takast á við á næstu árum.

Ég heyrði það í ræðu hér fyrr í dag frá einum ágætum þingmanni sem situr í salnum að hættan væri sú að innan örfárra ára stæðum við jafnvel frammi fyrir öðru hruni. Það má meira en vel vera að sú hætta sé fyrir hendi ef við erum ekki reiðubúin til að takast á við allan þann vanda sem blasir við og leysa úr þeim málum með samstilltu átaki. Ég held að það sé öllum hollt sem eru í þeirri stöðu að afgreiða fjárhagsmál ríkissjóðs að gera sér grein fyrir þeirri áhættu sem er uppi hvað þetta snertir. Að mínu mati erum við hins vegar komin yfir verstu hindranirnar en staðreyndin er sú að ýmis erfiðleikamál eru enn að koma fram í dagsljósið, sem við eigum eftir að takast á við. Íbúðalánasjóður er eitt af þeim stóru verkefnum. Það skiptir miklu að við náum utan um það mál af festu og alvöru og tryggjum að hægt verði að horfa til þess af ábyrgð þannig að þær kynslóðir sem eru núna að fara á íbúðamarkaðinn og stofna fjölskyldur hafi tækifæri og alvörumöguleika til að koma yfir sig þaki án þess að þurfa að leggja allt sitt að veði og eiga það á hættu að sitja uppi með gjaldþrot og eignamissi í stórum stíl, eins og við höfum því miður þurft að horfa upp á í kjölfar hrunsins sem yfir okkur gekk.

Rekstur ríkissjóðs er að komast í jafnvægi. Við nýtum sóknarfæri til uppbyggingar. Náðst hefur mikill árangur, en hann hefur kostað fyrirhöfn og fórnir. Við megum ekki missa sjónar af framhaldinu. Við megum ekki fara út af brautinni. Við erum í betri stöðu nú en áður. Við getum horft jákvæð til næstu ára, til uppbyggingar og framfara í velferð og atvinnulífi. Það er sá verðmæti og mikilvægi afrakstur sem við höfum nú á hendi eftir ábyrga og trausta og farsæla fjármála- og efnahagsstjórn núverandi ríkisstjórnar á síðustu árum.