141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[21:45]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Lúðvík Geirssyni, 2. varaformanni hv. fjárlaganefndar, fyrir ræðuna. Í þýsku er til hugtak sem heitir „Zweckoptimismus“, þ.e. bjartsýni með tilgangi, bjartsýni sem er ætlað að búa til bjartsýni. Mér fannst ræða hv. þingmanns helgast af því.

Ég vil spyrja: Átti ríkissjóður ekki að vera hallalaus árið 2013 samkvæmt samkomulagi ríkisstjórnarinnar við AGS? Er það ekki akkúrat það ár sem við erum að ræða hér? Stenst það?

Það er heilmikið af líkum í lestinni. Ég þarf ekki að nefna Íbúðalánasjóð. Hér hefur lítið verið rætt um A-deild LSR þar sem vantar 47 milljarða, frú forseti, það er nú kannski svona bitamunur en ekki fjár. Þeir 47 milljarðar hverfa ekki neitt, þeir munu detta á okkur fyrr eða seinna. Ég minni á B-deild LSR, ég ætla ekki að tala mikið meira um hana, þar eru þvílík ósköp. A-deildin átti að standa undir sér, en hefur ekki gert það. Síðan vantar fjöldamörg önnur atriði sem menn hafa verið að ræða.

Getur ekki verið að þetta séu ákveðin pótemkintjöld, þ.e. fögur ytri tjöld til þess að sýna stöðu sem er ekki raunveruleg? Eru menn ekki raunveruleikafirrtir þegar hv. þingmenn segja að þetta sé stöðug sigling í rétta átt?

Mig langar að spyrja varaformann fjárlaganefndar hvort nefndin hafi rætt fjárreiðulögin, sérstaklega 49. gr. sem segir að forstöðumenn beri ábyrgð á því að fjárhagur stofnunarinnar standist fjárlög.