141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:04]
Horfa

Lúðvík Geirsson (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég tek heils hugar undir þessi orð hv. þm. Ásbjörns Óttarssonar. Ég held að Alþingi gæti lært ýmislegt af því sem sveitarfélögin hafa lagt sig fram um, ekki síst á síðustu árum. Það þekkja þeir sem hafa starfað í sveitarstjórnarmálum, að þar er meiri áhersla lögð á samráð, samvinnu og samtakamáttinn, ekki síst þegar reynir á í erfiðum og þungum málum. Auðvitað er ágreiningur þar uppi líka eins og gengur og gerist og er eðlilegt, en það sýndi sig eftir hrunið, sveitarfélögin voru öll í mjög þungri stöðu, misþungri að vísu, að það var ekki eingöngu innan sveitarfélaganna sjálfra sem menn voru að reyna að ná breiðri samstöðu, heldur líka á milli þeirra. Þá tóku menn á með samhentum hætti til að ná fram hagræðingu innan skólakerfisins, sem tekur 60% af öllum rekstri sveitarfélaganna. Það skiptir máli að menn sýndu samhug í (Forseti hringir.) hvernig þeir gengu í þau verk, enda skilaði það miklum og góðum árangri.