141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:23]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Ég vil taka undir þá athugasemd sem hv. þingmaður gerði í upphafi máls síns um að fjárlagafrumvarpið sem slíkt, sem gagn, væri í raun mjög óaðgengilegt, ég tala nú ekki um fyrir þá hv. þingmenn sem eiga ekki sæti í fjárlaganefnd. Eitt er að eftir sameiningar ráðuneyta og breytingar í Stjórnarráðinu — það er alltaf verið að breyta Stjórnarráðinu eins og hv. þingmaður veit — er enn verra að átta sig á frumvarpinu og hvernig hlutirnir eru að þróast. Þetta hefur oft verið rætt og það er meira að segja pósitífur texti í frumvarpinu þar sem segir að gera eigi breytingar og færa þetta meira yfir í Stjórnarráðið fyrir 2. umr. til að þingið geti átt markvissari og meira upplýsandi umræðu um fjárlögin og geta áttað sig betur á þeim. Ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að frumvarpið sé óaðgengilegt og því þarf að breyta. Og það er ekki flókið, það þarf bara viljann. En kannski vilja menn ekki hafa það svo aðgengilegt að allir geti áttað sig almennilega á því.

Hv. þingmaður nefndi líka þann lið sem heitir Óviss útgjöld í fjármálaráðuneytinu. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé skynsamlegt að hafa þennan lið, en ég tek undir það sem hv. þingmaður segir að það þarf auðvitað að setja mun skýrari ramma utan um hann. Ég hef reyndar fylgst með þessu töluvert. Ég tel að í raun hafi ekki neitt farið í hann sem ætti ekki að vera þar.

Ég tek undir það sem hv. þingmaður segir um frumvarpið, að það sé óaðgengilegt, og það þarf að laga svo menn geti áttað sig betur á því. Ég mun spyrja hv. þingmann frekari spurninga í öðru andsvari.