141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:25]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Það er mjög bagalegt hversu óaðgengilegt fjárlagafrumvarpið er, ekki síst fyrir okkur sem eigum sæti í hv. efnahags- og viðskiptanefnd, en sú nefnd fjallar um tekjuöflunina sem þarf að fara í til þess að fjármagna fjárlagafrumvarpið. Ég lít á það sem skyldu mína að vera vel inni í breytingum á fjárlögum ríkisins til að vera í færum til að meta skattalagabreytingar ríkisstjórnarinnar.

Það getur verið ótrúlega mikil vinna að setja sig inn í fjárlagafrumvarpið og sérstaklega þær breytingar sem lagðar eru til, en ég hef ásamt hv. þm. Atla Gíslasyni alltaf reynt að gefa mér tíma til að fara í gegnum fjárlagafrumvarp hvers árs. Atli Gíslason hefur verið einstaklega iðinn við að fara ofan í hvern einasta fjárlagalið þó svo hann sitji ekki í hv. fjárlaganefnd. Ég vil geta þess að við munum leggja fram breytingartillögu fyrir 3. umr. um fjárlög sem byggja ekki bara á fjárlagafrumvarpinu sjálfu heldur líka á þeim breytingartillögum sem hafa verið lagðar fram.