141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[22:29]
Horfa

Lilja Mósesdóttir (U) (andsvar):

Virðulegi forseti. Á umbrotatímum þarf maður oft að hugsa út fyrir rammann. Í raun og veru er ég mjög íhaldssamur einstaklingur, en tímarnir sem við lifum á og hafa ríkt á meðan ég hef setið á þingi hafa verið afskaplega óvenjulegir og ég hef látið hugann reika svolítið út fyrir það sem hefur verið viðtekið og reynt að finna lausnir í hverju máli sem tryggja hagsmuni almennings. En fólk er misopið fyrir öðruvísi hugmyndum, öðruvísi lausnum. Ég verð að segja að ég hef orðið fyrir afskaplega miklum vonbrigðum þau þrjú ár sem ég hef setið á þingi með það hversu erfitt er að fá aðra stjórnmálamenn til að ræða og rökræða við mig um óvenjulegar hugmyndir að lausnum, t.d. á snjóhengjuvandanum. Ég skal viðurkenna það að ég hef orðið fyrir vonbrigðum með seðlabankastjóra í umræðum okkar um lausnir á snjóhengjuvandanum. Ég spurði seðlabankastjóra hvort Seðlabankinn mundi beita sér fyrir því að greitt yrði út í krónum þegar þrotabúin hæfu útgreiðslur. Þá var svarið að það mundi mögulega skerða eignarrétt kröfuhafa. Bíddu, mögulega skerða eignarrétt kröfuhafa? Eru það hagsmunir kröfuhafa sem skipta hér máli eða hagsmunir almennings? Hvernig getur það skert eignarréttinn þegar Íslendingar búa við það að þeir þurfa að skila inn (Forseti hringir.) gjaldeyri sem þeir eiga í Deutsche Bank í Þýskalandi inn í íslenskan banka? Skerðir það ekki eignarrétt Íslendinga sem eru með erlendar tekjur?