141. löggjafarþing — 42. fundur,  29. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[23:56]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Herra forseti. Það er erfitt að koma upp í ræðu á eftir hv. þm. Árna Johnsen sem var með ansi beitta ræðu. Hann reiddi hátt til höggs í mjög yfirgripsmiklu máli sínu. Ég hefði haldið að væri einhver döngun og eitthvert sjálfstraust í stjórnarliðinu hefði að minnsta kosti einn þingmaður veitt andsvar við ræðu hv. þm. Árna Johnsens en því er ekki til að dreifa. Nú sé ég að hv. þingmaður og formaður fjárlaganefndar, Björn Valur Gíslason, Ólafsfirðingurinn knái, er mættur í salinn — (ÁJ: Læddist inn.) læddist inn, segir hv. þm. Árni Johnsen, en maður tekur eftir hv. þingmanni sama hvar hann gengur.

Mér finnst í raun og veru hrópandi metnaðarleysi og áhugaleysi stjórnarliða við að verja það frumvarp sem við ræðum hér. Hingað hafa stjórnarandstæðingar komið með mjög málefnalegar spurningar og ábendingar er varða bæði verklagið og frumvarpið sjálft, en oftar en ekki talað fyrir daufum eyrum. Þá á ég við það að hv. þingmenn stjórnarliðsins skuli ekki í það minnsta bera hönd fyrir höfuð sér í umræðunni og reyna að koma svörum sínum og málefnum á framfæri. Því er ekki að heilsa í þessari umræðu. (BVG: Þú hefur bara ekkert verið hér í dag.) Ég hef fylgst með þessari umræðu í dag og hún hefur því miður verið ansi daufleg, hefur mér fundist. Mér hefur fundist vanta þann kraft sem ætti að einkenna til að mynda málflutning hv. þm. Björns Vals Gíslasonar. Oft dregur hann ekki af sér þegar verja þarf störf og stefnu ríkisstjórnarinnar.

Öðruvísi mér áður brá.

Enda er það svo að við erum að ræða við 2. umr. um fjárlög ríkisins viku á eftir áætlun sem sýnir okkur þann hringlandahátt sem einkennir störf ríkisstjórnarinnar, hins svokallaða meiri hluta á þingi, núna þegar þetta kjörtímabil er senn á enda. Það er ekki ljóst hvort í raun sé meiri hluti innan þingsins á bak við þetta fjárlagafrumvarp. Fyrst ríkisstjórnin er viku á eftir áætlun með umræðuna hefðum við kannski átt að taka nokkra daga til viðbótar til að við fengjum á hreint hvort það sé raunverulegur stuðningur við það frumvarp sem við ræðum hér.

Af hverju segi ég það?

Við höfum heyrt yfirlýsta stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar, tvo hv. þingmenn stjórnmálaflokksins Bjartrar framtíðar, lýsa verulegum efasemdum sínum um fyrirhugaða skattlagningu á ferðaþjónustu, a.m.k. tímasetninguna þar, og þar með var meiri hlutinn falinn fyrir því máli.

Í öðru lagi nefni ég innlegg hv. þm. Jóns Bjarnasonar fyrr í kvöld þar sem hann kom með fjölmarga fyrirvara sem snerta einstök atriði þessa frumvarps sem verða ekki skildir öðruvísi en svo að verði ekki farið að þeim vilja sem kom fram í orðum hv. þingmanns styðji hv. þingmaður það ekki. Það er mjög vandræðalegt að hlusta á umræðuna hér, sérstaklega þá máttlitlu sókn sem stjórnarliðar reyna að hafa hér uppi til að fylgja þessu frumvarpi úr hlaði og algjörlega óljóst hvort þetta frumvarp nýtur meiri hluta Alþingis eða ekki.

Mig langar að ræða örlítið um grunninn, hvernig við eigum að reka íslenskt samfélag og hvaða tækifæri við höfum haft til að bæta úr. Það er alveg rétt sem hv. þm. Björn Valur Gíslason hefur oft nefnt í ræðum sínum, það varð hrun árið 2008, efnahagslegt og jafnvel siðferðilegt hrun sem þurfti að bregðast við. Við framsóknarmenn höfum að hluta til tekið undir með ríkisstjórninni í því að að einhverju leyti þurfti að grípa til aðhaldsaðgerða hvað varðar opinberan rekstur og að einhverju leyti þurfti líka að auka álögur á heimili og fyrirtæki.

Við teljum að í báðum þessum atriðum hafi ríkisstjórnin gengið allt of langt. Þá spyrja menn okkur framsóknarmenn: Ja, hvað vilja menn gera? Það er ekki bæði hægt að halda og sleppa í þessum efnum. Þá gleyma menn þriðja atriðinu sem er aukin verðmætasköpun í samfélaginu. Nær engin þjóð á jafnmikil tækifæri og við Íslendingar til að auka verðmætasköpun í samfélaginu. Við höfum mikinn mannauð, við erum ein menntaðasta þjóð í heimi. Við höfum náttúruna okkar sem laðar að sér fjöldann allan af ferðamönnum. Við eigum gríðarlegar orkuauðlindir þar sem felast mörg tækifæri til að fjölga störfum. Ég get nefnt til að mynda á norðausturhorni landsins og á Suðurnesjum þar sem heimamenn hafa beðið í mörg ár eftir því að úr rættist og hægt væri að nýta auðlindir þar til að auka atvinnu og um leið styrkja búsetugrundvöll á þeim svæðum.

Við höfum líka gjöful fiskimið sem skapa þjóðarbúinu heilmikla fjármuni. Þannig ættum við í raun og veru, 320 þús. manna þjóð, að hafa öll tækifæri til að vera búin að auka snarlega tekjur ríkissjóðs, sveitarfélaga og kannski ekki hvað síst heimilanna og fyrirtækjanna í landinu. Þetta hefur ekki gengið eftir enda hafa þeir álitsgjafar sem hafa farið yfir fjármál íslenska efnahagskerfisins bent á að fjárfesting hér á landi er í sögulegu lágmarki. Það liggur við að það megi nota það orð að það sé botnfrosið í fjárfestingu í íslensku atvinnulífi og þess vegna eru tekjur ríkissjóðs og þær tekjur sem birtast í þessu fjárlagafrumvarpi svo lágar sem raun ber vitni. Þá má benda á að við þurfum að bregðast við vegna þessara lágu tekna með því að fara í mikla skattpíningu gagnvart fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu eða vega að grunnstoðum velferðarkerfisins eins og í heilbrigðismálum eða löggæslumálum. Þetta er það sem ríkisstjórnin hefur staðið fyrir og við framsóknarmenn höfum mótmælt mjög harðlega frá fyrsta degi. Ég ætla að fara yfir það síðar í ræðu minni. Mér finnst þetta ákveðið grundvallaratriði við 2. umr. fjárlaga þegar stjórnarliðar koma hér upp og spyrja: Hvað vilja menn gera? Vilja menn skera meira niður eða vilja menn hækka skattana meira?

Við segjum: Það er einfaldlega komið nóg af því. Við þurfum að útbúa hér umhverfi þar sem verðmætasköpun fer að eiga sér stað í landinu. Við þurfum að fjölga störfum á ný vegna þess að sú sveltistefna sem rekin hefur verið á undangengnum þremur árum hefur gengið sér til húðar.

Störf þessarar ríkisstjórnar þegar kemur að grundvallarþáttum í íslensku atvinnulífi, eins og í sjávarútvegsmálum, hafa leitt það af sér að fjárfesting í íslenskum sjávarútvegi hefur verið í algjöru lágmarki á undangengnum árum. Þannig hefur störfum fækkað, ekki bara í sjávarútvegi heldur líka í tengdum atvinnugreinum, sprotafyrirtækjum sem hafa lífsviðurværi sitt af því að þjónusta sjávarútveginn. Fjárfestingin hefur því miður verið hverfandi vegna þess að óljós skilaboð frá ríkisstjórninni um gríðarlega mikla skattheimtu eða fyrningu á aflaheimildum eða hvað mætti nú nefna sem hefur komið úr herbúðum sérstaklega Samfylkingarinnar, og reyndar Vinstri grænna líka, hafa orðið til þess að menn halda að sér höndum. Með nýlegu veiðigjaldi var gengið of hart fram gagnvart þessari atvinnugrein, að mínu viti. Við skulum ekki gleyma því að eins og sakir standa núna er afurðaverð lækkandi í fiskiðnaði vegna þess að Norðmenn og Rússar eru farnir að veiða meira. Það eru blikur á lofti og þess vegna er sú óvissa sem ríkir gagnvart þessari atvinnugrein ekki á hlutina bætandi. Á meðan ríkisstjórnin situr við sinn keip hvað þessi mál varðar fjölgar hvorki störfum í þessari atvinnugrein né öðrum þeim sem þjónusta sjávarútveginn.

Í öðru lagi mætti nefna iðnaðaruppbyggingu. Við framsóknarmenn höfum talað fyrir því að við eigum að nýta orkuauðlindir okkar, sama hvort við erum að tala um norðausturhorn landsins eða suðvesturhornið. Við þekkjum þá raunasögu, til að mynda á Bakka við Húsavík, hvernig stjórnvöld hafa lagt sig fram um að þvælast fyrir þeirri atvinnuuppbyggingu sem þar hefði getað verið farin af stað. Því miður er það veruleikinn. Endalausar yfirlýsingar og blaðamannafundir frá ríkisstjórninni um að eitthvað sé í nánd þegar viljinn er ekki meiri en raun ber vitni hafa leitt það af sér að sáralítið hefur gerst hvað þau mál varðar. Vonandi mun rætast þar úr en við erum því miður orðin mörgum árum á eftir áætlun þegar kemur að þessari mikilvægu uppbyggingu.

Af því að ég hef setið í efnahags- og viðskiptanefnd á undangengnum árum er skattkerfið mér hugleikið og þær fjölmörgu breytingar sem ráðist hefur verið í þar í tíð þessarar ríkisstjórnar. Þar hafa helstu hagsmunaaðilar verið sammála um að þær breytingar hafi verið illa ígrundaðar og lagðar fram með allt of stuttum fyrirvara. Þannig hefur atvinnulífið skaðast allverulega af því sem og orðspor Íslands af því að við erum endalaust að tala um erlenda fjárfestingu, hvernig við getum fengið aðila til að koma með fjármagn inn í hagkerfið til að byggja upp atvinnu. Þess vegna hafa menn haldið aftur af sér þegar kemur að þessum mikilvæga þætti í því að afla ríkinu tekna. Við vitum að með fjölgun starfa aukast tekjur ríkissjóðs til mikilla muna. Örar breytingar á skattkerfinu, ég held að þær séu vel á annað hundrað, hafa gert það að verkum að atvinnutækifærum hefur ekki fjölgað sem skyldi. Tækifærin eru til staðar. Við erum ekki nema 320 þús. manna þjóð og við ættum að geta búið til það umhverfi hér sem hvetur til fjárfestingar í atvinnulífinu fremur en letur. Því miður hefur ríkisstjórninni misheppnast þetta verkefni og í raun er frekar sorglegt að sjá það verklag sem menn hafa viðhaft á þessum undangengnum þremur árum þegar kemur að breytingum á skattkerfinu.

Margar breytingar sem hafa gengið í gegn hafa verið á þá leið að nær allir hagsmunaaðilar hafa gert athugasemd annaðhvort við það með hvaða hætti ætti að innleiða viðkomandi breytingar eða gagnvart breytingunum sjálfum yfir höfuð, en ekkert hefur verið á það hlustað. Kannski er ástand mála líka þannig í samfélaginu og lítið traust á milli aðila. Ef við horfum á samskipti ríkisstjórnarinnar við Samtök atvinnulífsins og Alþýðusamband Íslands til að mynda sést að traust þar á milli er nær ekki neitt.

Hvernig var það í tíð Steingríms Hermannssonar þegar þjóðarsáttin var innleidd? Þar voru menn leiddir að borðinu, fulltrúar bænda, verkalýðs, atvinnulífs og stjórnmálaflokka. Menn settust niður og komust að ákveðinni sátt, þjóðarsátt um það hvernig við ættum að koma okkur út úr þeim erfiðleikum sem blöstu við Íslendingum þá. Þetta hefur ekkert verið reynt. Að minnsta kosti hefur þá reyndin verið sú að hinn svokallaði stöðugleikasáttmála sem gerður var, að mig minnir árið 2009 frekar en 2008, hefur í fjölmörgum ákvæðum verið þverbrotinn.

Núna hefur Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, minnt ítrekað á það að undanförnu að ríkisstjórnin standi ekki við gerða samninga. Það erum ekki bara við í minni hlutanum á Alþingi sem gagnrýnum framgöngu ríkisstjórnarinnar, ekki bara á þessu þingi heldur á undangengnum tveimur, þremur árum. Það erum ekki bara við, það eru aðrir helstu hagsmunaaðilar í samfélaginu. Það er ljóst að þessari ríkisstjórn hefur ekki tekist að sinna því hlutverki sínu að vera sameiningartákn. Þvert á móti hafa fulltrúar ríkisstjórnarinnar oftar en ekki komið fram með þann málflutning sem elur á sundrungu eins og gagnvart sjávarútveginum. Þar er bara talað um „okkur“ og „þá“. Svo er sett fram mynd af forríkum mönnum. Það eru örugglega efnaðir menn í þessari grein en hundruð eða þúsundir einstaklinga hafa líka lífsviðurværi sitt af íslenskum sjávarútvegi, margar smábátaútgerðir. Við sjáum núna sem dæmi að nýlegt veiðigjald bitnar sérstaklega á minnstu og meðalstóru útgerðunum. Við heyrum sögur af því að menn ræða um að selja rekstur sinn til þeirra stóru sem núna eru innan kerfisins. Maður veltir fyrir sér: Var hugmyndin með því að leggja veiðigjaldið á sérstaklega sú að vega að litlum og meðalstórum útgerðum sem skipta mörg byggðarlög hringinn í kringum landið gríðarlega miklu máli?

Enn ætla ég að halda áfram að tala um hringlandahátt ríkisstjórnarinnar, nú varðandi ferðaþjónustuna. Nú vita ferðaþjónustuaðilar ekki hver skattlagning verður á næstu árum í þeirra atvinnugrein. Við höfum fengið sögur af því að menn hafa hætt við uppbyggingu á nokkrum stöðum á landinu, hætt við að byggja hótel á mörgum stöðum vegna þeirrar óvissu sem ríkisstjórnin hefur sett á í þeirri ört vaxandi atvinnugrein sem ferðaþjónustan er. Við erum þar á alþjóðlegum samkeppnismarkaði og ef mönnum er alvara með að setja íslenska ferðaþjónustu í hæsta skattþrep í heimi þegar kemur að álagningu á ferðaþjónustu held ég að menn séu ekki alveg jarðtengdir. Þeir eru ekki að hugsa um hagsmuni íslensks almennings vegna þess að mjög margir vinna við og hafa lífsviðurværi sitt af íslenskri ferðaþjónustu.

Þetta eru dæmin, sjávarútvegurinn, iðnaðurinn, breytingar á skattkerfi, málefni ferðaþjónustunnar og nær ekkert samkomulag við helstu aðila á vinnumarkaði, um þann hringlandahátt sem hefur einkennt störf og stefnu ríkisstjórnarinnar á kjörtímabilinu. Svo standa menn hér og eru hissa á að ekki skuli vera meiri innkoma í ríkissjóð en raun ber vitni. Málið er að vegna þessarar stefnu og vegna þessara starfa ríkisstjórnarinnar eru tekjur ríkissjóðs svo lágar sem raun ber vitni. Hverjir gjalda fyrir það?

Þessi norræna velferðarstjórn hefur markvisst vegið að velferðarþjónustu á landsbyggðinni. Ófáir íbúafundir hafa verið haldnir víða um land þar sem fólk hefur slegið skjaldborg um heilbrigðisstofnanir í byggðarlögum sínum vegna þess að ótrúlegar hugmyndir um niðurskurð á þessari grunnvelferðarþjónustu hringinn í kringum landið áttu að verða að veruleika. Það var reyndar hægt að draga aðeins í land en vegna þessarar stefnu ríkisstjórnarinnar er nú því miður svo komið sem raun ber vitni.

Það er líka þannig með löggæsluna á landsbyggðinni. Það heyrir orðið til tíðinda á sumum landsvæðum ef það sést lögreglumaður á ferð. Mörg byggðarlög hafa orðið fyrir því að lögreglumönnum hefur verið sagt upp störfum og auðvitað segir það sig sjálft að þessir laganna verðir sem eiga að gæta öryggis borganna þurfa að vera starfandi hringinn í kringum landið. Nú er svo komið að á fjölmörgum stöðum er nær engin löggæsla. Þessu þurfum við að breyta.

Ef við erum jafnaðarmenn, félagshyggjumenn eins og við framsóknarmenn, hljótum við að tala fyrir jöfnum tækifærum fólks, sama hvar það býr á landinu. Fólk á að hafa jafnan rétt til heilbrigðisþjónustu, gagnvart löggæslumálum, menntamálum — og húshitun. Hugsið ykkur, samkvæmt þessu frumvarpi stefnir allt í að húshitunarkostnaður fólks á köldum svæðum verði enn þá í hrópandi ósamræmi við þá sem búa við heitt vatn. Við erum að tala um 10% íbúa landsins sem þurfa áfram að sætta sig við þennan ójöfnuð. Vegna hækkunar á gjaldskrá Landsnets fyrir flutningsdreifingu á netinu sem tilkynnt var í dag munu þær breytingar sem þar voru kynntar bitna mun harðar á fólki á köldum svæðum. Þetta er prósentutala sem leggst ofan á ákveðna fasta tölu sem er mun hærri á köldu svæðunum.

Það kostar fólk jafnvel heil mánaðarlaun á ári að kynda húsin sín á köldu svæði samanborið við hin 90% af heimilum landsins. Þetta er náttúrlega ekkert réttlæti. Hvernig högum við okkar málum gagnvart ungu fólki og því að koma til móts við þann kostnað sem 16 ára ungmenni hefur af því að sækja framhaldsskólanám fjarri heimili sínu? Sem betur fer höfum við á undangengnum árum fjölgað stöðum á landinu, eins og Fjallabyggð, Snæfellsnesi og Þórshöfn, þar sem fólk hefur þessi grunnréttindi. Jú, það er ekki nægilega gengið fram til að styrkja ungt fólk til náms vegna þess að þetta á víst að snúast um jöfn réttindi sama hvar menn búa á landinu.

Við þingflokkur Framsóknarflokksins hittum Félag hjúkrunarfræðinga um daginn. Ég man að við ræddum það mál í þingsal og meðal annars tók hv. þm. Árni Johnsen þátt í þeirri umræðu. Það var dálítið merkilegt að upplifa málflutning félagsins, í fyrsta lagi um það hvernig kjör þeirra hafa þróast og þegar þær sögðu okkur — þær, segi ég af því að 96% af þessari stétt eru konur — þegar okkur var sagt frá því hvers lags flótti er að verða úr þessari stétt. Norðmenn eru markvisst farnir að sækja inn á þennan markað. Það er gríðarlegt álag hjá þessari heilbrigðisstétt og reyndar öllum heilbrigðisstéttum. Þegar talið barst að framlögum til velferðarmála sögðu þær: Það er alveg rétt, það er búið að skera alveg blóðugt niður á Landspítala – háskólasjúkrahúsi. En hvernig er með hinn geirann, einkageirann, í heilbrigðiskerfinu? Það hefur ekki verið mikill niðurskurður þar, þvert á móti. Kostnaður hefur aukist þar þannig að það er þessi norræna velferðarstjórn, vinstri stjórnin, sem hefur stuðlað að því að verkefni hafa flust út af Landspítalanum yfir í einkageirann. Öðruvísi mér áður brá. (Gripið fram í: Samningarnir …) Og það er alveg með ólíkindum. Það er eins og mönnum sé ekki alveg sjálfrátt þegar þeir tala fyrir sínum helstu stefnumálum. Það er sérkennilegt að horfa upp á þá þróun hjá Vinstri hreyfingunni – grænu framboði og Samfylkingunni að fjármagn og verkefni séu markvisst flutt út af Landspítala – háskólasjúkrahús yfir í einkageirann. Nú hefur þessi ríkisstjórn verið við völd í bráðum fjögur ár og það er alveg merkilegt að fylgjast með þeirri þróun sem þarna hefur átt sér stað.

Frú forseti. Það má trúlega segja — (Forseti hringir.) nei, herra forseti, ég biðst afsökunar. Það er langt liðið á kvöld. Ég vona að herra forseti fyrirgefi mér þetta mismæli.

(Forseti (ÁÞS): Afsökunarbeiðnin er að þessu sinni tekin til greina.)

Ég heyrði á slættinum í bjölluna að forseta mislíkaði þetta verulega þannig að þetta mun ekki endurtaka sig hér.

Ég ætlaði að ræða um fjárfestingaráætlun ríkisstjórnarinnar, herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Það verður ánægjulegt að hlýða á.)

Það er margt jákvætt í henni, ég ætla ekkert að draga úr því. Ég verð samt að játa að mér finnst ýmislegt í henni lykta af kosningum og í raun og veru finnst mér varhugavert að við leggjum í miklum mæli, eins og staðan er, til fjármuni úr ríkissjóði til atvinnuuppbyggingar þegar við horfum upp á bankakerfið stútfullt af peningum. Það er fullt af tækifærum til að koma þessum peningum í vinnu. Ég sé að hv. þm. Björn Valur Gíslason hlustar af athygli. Ég vona að hann hafi náð þeim hluta ræðu minnar þar sem ég fór yfir skattstefnu ríkisstjórnarinnar og það umhverfi sem ríkisstjórnin hefur skapað atvinnulífinu sem hefur leitt það af sér að fjárfesting er í algjöru lágmarki hér á landi. Atvinnusköpunin er mjög lítil og við höfum horft upp á það að fólk hefur flutt héðan til Noregs í leit að atvinnu. Ríkisstjórnin gumar sig af minna atvinnuleysi, en hvernig ætli standi á því? Jú, það eru sérstök verkefni í gangi með Vinnumálastofnun í samstarfi við sveitarfélögin þar sem atvinnulaust fólk fer í vinnu sem er þá skilgreind sem ákveðin vinna. Í öðru lagi hefur fólk misst réttindi sín hjá Atvinnuleysistryggingasjóði vegna þess að það er búið að vera í ákveðið langan tíma atvinnulaust þannig að það er komið á framfærslu sveitarfélaganna. Þessir tveir þættir gera það að verkum að atvinnuleysi er orðið miklu minna í þessu samfélagi en tölur Atvinnuleysistryggingasjóðs gefa til kynna. Nei, frú forseti, þetta einfaldlega ber glöggt — (Forseti hringir.) herra forseti.

(Forseti (ÁÞS): Þingmaðurinn hét því fyrir nokkrum mínútum að mismæla sig ekki í þessu efni og forseti áminnir þingmanninn.)

Það væri ágætt, herra forseti, að gefa mér tækifæri til að fresta ræðunni til morguns. Ég skyldi glaður ávarpa hann með réttum hætti í fyrramálið, en ég skal samt gera mitt besta til að klára ræðuna án þess að rangnefna herra forseta.

Herra forseti. Við þurfum að breyta um kúrs. Ég ætla ekki að draga dul á það að auðvitað var verkefnið erfitt sem þessi ríkisstjórn tókst á hendur. Við framsóknarmenn höfum lagt fram fjölmargar tillögur í þinginu í skuldamálum heimilanna. Ég ætla ekki að fara yfir þær, við höfum rætt þær svo oft hér. Þær voru slegnar út af borðinu á fyrstu fimm mínútunum eftir að við lögðum þær fram snemma árs 2009. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur í atvinnumálum. Því miður hefur lítið verið hlustað á þær. Við höfum lagt fram fjölmargar tillögur í efnahagsmálum en þessi ríkisstjórn hefur ekki viljað hlusta á ráðagóðar tillögur okkar, ekki frekar en á tillögur aðila vinnumarkaðarins. Þetta er akkúrat kjarninn í því sem ég sagði í upphafi ræðu minnar, við þurfum öðruvísi ríkisstjórn, við þurfum ríkisstjórn sem talar í lausnum. Við þurfum líka ríkisstjórn sem talar kjark í fólkið í landinu, talar um framsýni og tillögur líkt og við framsóknarmenn höfum gert á Alþingi Íslendinga.

Hins vegar skulu menn ekki gleyma því að hlutverk stjórnarandstöðunnar, eins og ég hef verið að benda á — það er svo margt hér sem hægt er að benda á sem því miður hefur ekki farið nægilega vel — að halda stjórnvöldum við verkið. Það er líka hlutverk ríkisstjórnar og stjórnvalda, eins og ég sagði, að tala þannig um hlutina, til að mynda um gjaldmiðil landsins, að aðilar erlendis fái traust á okkur þannig að þeir vilji horfa hingað í leit að fjárfestingarkostum. Við höfum oft horft upp á ummæli í erlendum fréttaveitum valda því að traust manna á íslensku efnahagskerfi hefur orðið mjög takmarkað. Hvers vegna? Kannski vegna þess að forustumenn í ríkisstjórn Íslands hafa meðal annars dregið upp mjög dökka mynd af stöðu gjaldmiðilsins. Ég ætla ekki að tala um ummæli um Íbúðalánasjóð á dögunum á Bloomberg-stöðinni þar sem stöðva þurfti viðskipti með skuldabréf Íbúðalánasjóðs vegna ummæla eins stjórnarþingmanns. Á meðan ræddi ríkisstjórnin um málefni sjóðsins á lokuðum fundi og tilkynnti reyndar skömmu síðar um ákveðin úrræði í því. Menn þurfa að haga störfum sínum þannig að við njótum trausts.

Þetta eru síðustu fjárlögin sem ég mun ræða hér, a.m.k. í bili, og ég vonast til þess að við förum að sjá betur til sólar í störfum stjórnvalda hér á landi þegar kemur að kosningum. Það er ljóst að við höfum gríðarleg tækifæri, nær óþrjótandi vil ég segja. Við erum eins og smábær í Danmörku en samt með allar þessar auðlindir við útidyrnar, liggur mér við að segja, þannig að við eigum að geta gert hér mikla og góða hluti í framtíðinni. Vonandi verður það þannig á næsta ári að við sem þjóð berum gæfu til þess að hér verði mynduð starfsöm ríkisstjórn. Þá er mikilvægt að í slíka ríkisstjórn veljist flokkar sem hafa lagt fram tillögur og hafa skýra framtíðarsýn í atvinnumálum Íslendinga sem og í efnahagsmálum og um skuldavanda heimilanna. Eins og ég hef bent á þurfum við nauðsynlega að fjölga störfum í samfélaginu. Með því að auka eftirspurn eftir störfum fara launin að hækka. Það er líka eitt meinið í dag að vegna launaþróunar hafa margir átt mjög erfitt með að borga af lánum, m.a. vegna íbúðakaupa. Og það er ekkert endilega óráðsíufólk.

Við þurfum að breyta um kúrs og það er alveg ljóst að sú stefna sem ríkisstjórnin hefur haft í þessum grundvallarmálum þjóðarinnar er ekki leiðin til lífsins. Ég tel að ríkisstjórnarflokkarnir verði að horfa í eigin barm og viðurkenna staðreyndir málsins, að það eru miklir erfiðleikar í íslensku samfélagi. Við gætum verið búin að skapa miklu meiri verðmæti í samfélaginu og þannig aukið tekjur ríkissjóðs. Þess vegna ættum við ekki að þurfa að tala um að á mörgum stöðum á landinu sé engin lögregla að störfum eða það sé verið að loka heilu deildunum á mjög mikilvægum heilbrigðisstofnunum. Við eigum ekki að þurfa að standa í þessu.

Ég sat í salnum áðan og hlustaði á ræðu hv. þm. Árna Johnsens sem efnislega var kannski á svipaða lund og sú sem ég flyt hér nema það voru mikil tilþrif í henni. Eins og ég sagði reiddi hann hátt til höggs en samt veitti enginn stjórnarþingmaður andsvar við neinu af því sem hv. þingmaður lagði fram. Það er alveg með ólíkindum. Ég hef setið margar fjárlagaumræður og menn voru settir á vaktina til að reyna að svara einhverju af því bulli, eins og þá var sagt, sem stjórnarandstaðan lagði fram. Þetta er náttúrlega mjög málefnalegt, herra forseti, sem hér hefur komið fram en andleysið er algjört og sýnir að sjálfstraustið og eigum við að segja stöðugleikinn á bak við þetta frumvarp er af skornum skammti. Það hefur komið í ljós í umræðunni í kvöld þar sem meðal annars hv. þm. Jón Bjarnason, stjórnarliði, hefur gert ýmsar athugasemdir við frumvarpið. Það veit enginn hvernig þetta frumvarp mun líta út við 3. umr. Ýmislegt er víst óafgreitt þar þannig að við skulum vona að menn nái að gera einhverja bragarbót á þessu.

Tilefni þessarar ræðu minnar er að benda á að við þyrftum ekki að vera í þessari stöðu. Við framsóknarmenn höfum lagt fram ítarlegar tillögur í samráði við hagsmunaaðila í atvinnulífinu til þess eins að auka tekjur þjóðarbúsins, ríkissjóðs, sveitarfélaga, heimilanna og fyrirtækjanna. Það hlýtur að vera markmið okkar, við getum ekki endalaust hækkað skatta og haldið áfram að skera niður því að þannig endum við í spíral sem ég veit ekki hvar endar.

Vonandi upplifum við það á nýju ári að sjá starfsama ríkisstjórn sem mun snúa vörn í sókn. Það veitir ekki af.