141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:26]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er erfitt að rökræða við menn um fjárlagafrumvarpið þegar þeir tala ekki einu sinni um það sjálfir. Hérna nefndi hv. þingmaður varla fjárlagafrumvarpið á nafn í allri sinni löngu ræðu, ekki einu einasta orði. Hann tafsaði hins vegar um botnfrosnar fjárfestingar á Íslandi, sérstaklega í sjávarútvegi. Hvers konar rugl er þetta, virðulegi forseti? Ég get talið upp fyrir hv. þingmann fjárfestingar í sjávarútvegi á síðasta rúma ári fyrir hátt í 40 milljarða kr. og þær eru flestar í hans eigin kjördæmi. Svo er hann búinn að telja sjálfum sér trú um að fjárfestingar í sjávarútvegi séu botnfrosnar, það sé akkúrat ekkert að gerast þar. Þetta eru mestu fjárfestingar í sjávarútvegi sem átt hafa sér stað árum saman. Þvílík steypa að þetta sé allt botnfrosið. [Hlátur í þingsal.]

Það er talað um köldu svæðin og það er talað um hvað eigi að gera fyrir ungt fólk í menntamálum. Það stendur í fjárlagafrumvarpinu sem hv. þingmaður hefur ekki lesið. Þar eru einmitt tillögur í þá veru að koma til móts við húshitunarkostnað á köldum svæðum. (BJJ: 175 …) Það er verið að stofna enn eina nýju framhaldsdeildina, nú á Hólmavík samkvæmt tillögu meiri hluta fjárlaganefndar sem ég ætla að vona að hv. þingmaður styðji í atkvæðagreiðslu þegar að því kemur. Það er til viðbótar þeim framhaldsskóla sem var reistur á kjörtímabilinu í hans eigin heimabyggð austur á Þórshöfn. Ég ætla rétt að vona að hv. þingmaður sé ekki að tala um að það sé verið að rífa menntamál niður. Það er langur vegur frá því.

Hv. þingmaður virðist einfaldlega ekki hafa lesið fjárlagafrumvarpið sem um ræðir og ekki hafa hugmynd um efni þess. Það var ekki að heyra á ræðu hans. Það er mjög erfitt að ræða mál við þingmenn sem hafa ekki hugmynd um það.

Hv. þingmaður talar gegn því að ríkisstjórnin setji fé í atvinnulífið í gegnum fjárfestingaráætlun. Í næsta orði segir hann að ríkisstjórnin hafi verið að koma atvinnulífinu í gang. Ríkisstjórnin verður náttúrlega að gera eitthvað. Hvað í ósköpunum vill hv. þingmaður (Forseti hringir.) og hvaða skoðun hefur hann á því máli (Forseti hringir.) sem hér er á dagskrá og til umræðu, þ.e. fjárlagafrumvarpi næsta árs, (Forseti hringir.) 2013?