141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:28]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmanni bregst ekki bogalistin. Þetta eru kannski þessi samræðustjórnmál sem ríkisstjórnin vill viðhafa. Ég ætla ekki að svara því. Jú, ég skal svara því, að sjálfsögðu hef ég lesið fjárlagafrumvarpið. Það er reyndar með ólíkindum að hv. þingmaður skuli voga sér að bera manni það á brýn að hafa ekki lesið fjárlagafrumvarpið sem er aðalþingmál haustsins. Allir þingmenn sitja í einhverri nefnd og að sjálfsögðu lesum við fjárlagafrumvarpið.

Hv. þingmaður vogar sér að halda því fram að ég hafi ekki minnst einu orði á fjárlagafrumvarpið. Svo rifjar hann reyndar upp fullt af hlutum sem ég nefndi, akkúrat um fjárlagafrumvarpið. Staðreyndin er að það þurfti hálfan milljarð vegna niðurgreiðslna á köldum svæðum en það fóru einungis 175 milljónir í það.

Hv. þingmaður getur ekki sagt að það komi fjárlagafrumvarpinu ekki við.

Kemur niðurskurður í heilbrigðisþjónustu fjárlagafrumvarpinu ekkert við?

Kemur tekjuhlið fjárlaganna sem snertir fjárfestingu í samfélaginu fjárlagafrumvarpinu ekkert við? Það er grundvöllur fjárlagafrumvarpsins. Það er það einfaldlega ekki hægt að fara í hvern einasta lið í fjárlagafrumvarpinu. Ég fór í forsendur fjárlaganna og hvernig hlutirnir gætu verið öðruvísi en þeir eru og benti reyndar í ræðu minni á fullt af hlutum sem ég teldi að gætu horft til framfara fyrir þetta land.

Þá kemur hv. þingmaður hingað upp og heldur því fram að sá sem hér stendur hafi efnislega ekki flutt neina ræðu um fjárlagafrumvarpið sem er alvarleg ásökun í sjálfu sér. Svo bítur hann höfuðið af skömminni með því að halda því fram að sá sem hér stendur hafi ekki unnið vinnuna sína og ekki lesið fjárlagafrumvarpið. Þetta er hv. þingmanni ekki til sóma.