141. löggjafarþing — 42. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[00:36]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst um þjóðkirkjuna. Trúlega hefur hv. þingmaður rétt eins og ég fengið fjölmarga pósta frá fólki vítt og breitt um landið þar sem verulegum áhyggjum er lýst af þeim mikla niðurskurði sem þar hefur átt sér stað sem nemur tugum prósenta í sumum tilvikum. Þetta er jafnvel farið að vega að þeirri þjónustu sem kirkjan hefur veitt. Sem þingmenn landsbyggðarinnar þekkjum við hve gríðarlega mikilvægu hlutverki kirkjan gegnir í nærsamfélaginu. Á okkar gleðilegustu stundum sem og okkar erfiðustu hefur hún mikinn tilgang fyrir okkur. Ég tel að of hart hafi verið gengið fram hvað þessi mál varðar.

Varðandi eldri borgarana tel ég að menn hafi ekki sinnt þeim málaflokki nægilega vel. Ég vil líka nefna annan málaflokk, málefni öryrkja. Þar voru menn líka komnir dálítið langt með aðra hugsun, að horfa á starfsgetuna en ekki örorkuna. Menn voru komnir í spennandi vinnu hvað þau mál varðar. Því miður hefur lítið gerst þar. Þau stóru orð sem vinstri grænir og samfylkingarmenn viðhöfðu í aðdraganda síðustu kosninga, að það ætti að hlífa sérstaklega þessum hópum, öryrkjum og öldruðum, hafa ekki gengið eftir. Það geta forsvarsmenn eldri borgara vitnað um vegna þess að þessi hópur hefur orðið mjög illa fyrir barðinu á stjórnarháttunum.

Ef hv. þingmaður kemur aftur upp mundi ég gjarnan vilja heyra sjónarmið hans gagnvart þeim sem hafa misst starfsgetuna og hvernig við eigum að bregðast við þeim hópi sem hefur heldur ekki farið vel út úr störfum og stefnu þessarar stjórnar.