141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:31]
Horfa

Mörður Árnason (Sf):

Forseti. Í þessum fámenna þingsal tel ég þó við hæfi að fagna úrslitum atkvæðagreiðslunnar í gær í New York; 2/3 aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna greiddu atkvæði með tillögunni um að Palestína fái stöðu ríkis án aðildar í þeim alþjóðasamtökum, sömu stöðu og Vatíkanið. Í því felst viðurkenning á Palestínu sem ríki. Palestínumenn hafa eftir atkvæðagreiðsluna aðgang að öllum stofnunum Sameinuðu þjóðanna og geta m.a. sótt mál fyrir stríðsglæpadómstólnum, sem kann að breyta samskiptum þeirra við Ísraelsher.

Aðeins níu ríki voru á móti. Það er fróðlegt að skoða þann lista. Það eru auðvitað Ísrael og Bandaríkin og svo Kanada, en eina Evrópuríkið er Tékkland undir forustu Vaclavs Klaus. Hin ríkin eru Marshalleyjar, Míkrónesía, Nárú, Pala og Panama og þarf ekki að hafa mörg orð um það nema að vegur hinna mikilfenglegu Bandaríkja Vesturheims hefur oft verið meiri um heimsbyggðina.

Það er gott því að niðurstaða gærdagsins er fyrst og fremst lexía fyrir Bandaríkin, hinn fjárhagslega, pólitíska og hernaðarlega bakhjarl Ísraelsmanna. Sagan frá fyrri heimsstyrjöldum í gegnum kalda stríðið er auðvitað baksvið afstöðu þeirra og þekking á bandarískum stjórnmálum getur vissulega skýrt afstöðu Bandaríkjastjórnar hvort sem þar eru við völd repúblikanar eða demókratar. En að skilja er ekki það sama og að fyrirgefa.

Eftir þá viðburði sem nú hafa orðið í mánuðinum og sérstaklega eftir hinn mikla utanríkispólitíska sigur Palestínumanna á allsherjarþinginu í gær, hljóta bandamenn Bandaríkjanna að kalla eftir skýrri sýn þeirra til málefna Miðausturlanda almennt og sérstaklega vandans í Palestínu og Ísrael. Ég fer fram á að hæstv. utanríkisráðherra geri það. En ég vil líka hrósa hæstv. utanríkisráðherra. Maður var stoltur Íslendingur fyrir ári þegar við í þessum sal samþykktum að viðurkenna Palestínuríki (Forseti hringir.) nánast fyrst vestrænna þjóða. Það er líka stoltur Íslendingur sem fagnar því í dag að samþykkt var tillaga sem Ísland átti aðild að að flytja á þingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gær.