141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:41]
Horfa

Árni Þór Sigurðsson (Vg):

Frú forseti. Í gær, 29. nóvember, var stór dagur í sögu palestínsku þjóðarinnar þegar allsherjarþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti með yfirgnæfandi meiri hluta að palestínska þjóðin skyldi fá fasta áheyrnaraðild í Sameinuðu þjóðunum. Það er baráttumál sem við Íslendingar og Alþingi Íslendinga hefur látið sig varða um langt skeið. Eins og kunnugt er samþykkti Alþingi mótatkvæðalaust fyrir ári síðan að viðurkenna Palestínu sem sjálfstætt og fullvalda ríki. Þetta eru mikil gleðitíðindi í sögu palestínsku þjóðarinnar og við hljótum að deila þeirri gleði með Palestínumönnum.

Það er hins vegar umhugsunarefni að nokkrar þjóðir á vettvangi Sameinuðu þjóðanna, m.a. bandalagsþjóðir okkar Íslendinga, kusu að greiða atkvæði gegn þeirri ályktun sem þar var samþykkt. Ég tek undir með hv. þm. Merði Árnasyni að það er ástæða fyrir okkur Íslendinga að brýna bandalagsþjóðir okkar, og þá ekki síst Bandaríkin sem við vitum öll að ráða auðvitað mestu og því sem þau vilja ráða um framgang mála í Miðausturlöndum, að snúa nú við blaðinu og beita sér af alefli fyrir tveggja ríkja lausninni, því að eins og fram kom í máli Abbasar, forseta Palestínu, á allsherjarþinginu í gær er hætt við að sú leið sé að verða ófær eftir því sem Ísraelsmenn mylja undir sig sífellt meira land. Þess vegna er mjög brýnt að ganga nú hratt til verks og beita Ísraelsmenn þrýstingi í þessu efni.

En það er líka áhyggjuefni að margar vinaþjóðir okkar í Austur-Evrópu, m.a. Eystrasaltsþjóðirnar sem voru til skamms tíma undirokaðar þjóðir og þurftu að berjast fyrir eigin sjálfstæði, skyldu ekki treysta sér til að styðja sjálfstæðisbaráttu Palestínumanna. Það er líka umhugsunarefni og nokkuð sem mér finnst að við Íslendingar eigum að ræða við þessar vinaþjóðir okkar. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)