141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:51]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. Pétri H. Blöndal, eins og margt sem hann segir, að stjórnarskrártillögur hafa legið í þinginu allan fyrravetur. Þær voru sendar út til umsagnar. Ég man ekki nákvæmlega hve margar bárust en þær eru á fjórða tug.

Vinna stjórnlaganefndar liggur fyrir og fyllir að ég held tvö bindi. Við erum með mjög mikinn fróðleik í hillunum hjá okkur um þessi efni. Við höfum nú síðast fengið frá ýmsum fræðimönnum fylgiskjölin með frumvarpinu sem hefur verið lagt fram. Ég hef hvatt skrifstofuna eða nefndasviðið til að fara í gegnum þessi gögn og afhenda nefndunum hverri fyrir sig þannig að auðveldlega megi ganga að þeim og ræða þessi mál eins og þarf.

Ég hef líka sagt og við höfum sagt það í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd að ef einhverjir þurfa lengri tíma erum við auðvitað til viðræðu um það. Við hlustum og við bregðumst líka við sem er svolítið ólíkt sumu fólki sem hlustar en bregst svo aldrei við. Ef einhver getur ekki skilað fyrr en í byrjun janúar þá kemur það í byrjun janúar.

Við skulum líka átta okkur á því að þetta er verk sem við ætlum að klára fyrir kosningar og það hefst ekki ef við fáum ekki umsagnir fyrr en í lok janúar.