141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

störf þingsins.

[10:58]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Álfheiður Ingadóttir sagði að svona væri lífið hér í þingsölum. Eigum við þá ekki að gera áætlanir í þingsölum sem eru raunhæfar og geta staðist? Eigum við þá ekki að gefa tímafresti sem geta staðist? Eigum við þá ekki að hafa eðlilega fresti fyrir nefndirnar til að skila vönduðum umsögnum en ekki hálfan mánuð á þeim tíma sem er annasamastur í störfum flestra nefnda þingsins nema kannski velferðarnefnd? Ég hef heyrt velferðarnefnd nefnda sem dæmi um nefnd sem ekki hefur mörg verkefni í augnablikinu. Allar aðrar nefndir eru á bólakafi. Við hv. þm. Álfheiður Ingadóttir þekkjum það í umhverfis- og samgöngunefnd að við erum með fjöldann allan af stórum málum. Við þekkjum það úr efnahags- og viðskiptanefnd að þar er fjöldinn allur af stórum málum og mörg mál ekki komin. Í atvinnuveganefnd eru stærstu mál þingsins ekki komin, fiskveiðistjórnarfrumvörpin. Eitt þeirra kom í gær. Önnur eru ekki komin. Þetta eru risavaxin mál fyrir utan auðvitað fjárlagamálin og allt sem þeim tengist. Auðvitað er fullkomlega óraunhæft að gefa þingnefndunum jafnstuttan tíma og raun ber vitni.

Það er líka fráleitt að gefa umsagnaraðilum úti í bæ jafnstuttan tíma og raun ber vitni, hálfan mánuð. Það er algerlega fráleitt og þeim mótmælum hefur verið komið fram á vettvangi nefndarinnar, en að sjálfsögðu var ekkert á það hlustað frekar en þær athugasemdir sem komið hafa fram af hálfu minni hlutans í þeirri nefnd hingað til. Svo eru menn hissa á því að gagnrýnin færist hingað inn í þingsali. Menn geta gefið sér það að þessum vinnubrögðum verður mótmælt eins og fjöldamörgum fráleitum vinnubrögðum af hálfu meiri hlutans í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í þinginu í sambandi við þetta mál á undanförnum missirum, fráleitum vinnubrögðum sem eru fyrir neðan allar hellur og hafa sætt harðri gagnrýni allra sem um það hafa fjallað í fræðasamfélaginu — allra. (Forseti hringir.) Sú gagnrýni heyrist enn og mun heyrast alveg örugglega á næstunni vegna þess að fræðimenn fórna höndum þegar þeir fá þær beiðnir sem koma frá þingnefndum í þessari lotu. — Þakka þér fyrir hv. þingmaður Mörður Árnason, ég fylgist líka með klukkunni.