141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

afbrigði um dagskrármál.

[11:10]
Horfa

Birgir Ármannsson (S):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að leggjast gegn því að afbrigði verði veitt fyrir þeim málum sem hér um ræðir. Ég vek hins vegar athygli á því að löngum hefur verið talað um að bæta ætti vinnubrögð í sambandi við framlagningu mála hér á þingi. Löngum hefur verið talað um að bæta ætti framlagningu stjórnarfrumvarpa sérstaklega og þar hafa verið nefnd frumvörp sem snúast um tekjuhlið fjárlaga eins og mál nr. 3 og 4 á dagskránni eru til dæmis. Í dag er 30. nóvember.

Þessum málum var dreift í gærkvöldi. Fjárlagafrumvarpið kom fram snemma í september og við höfum beðið eftir þessum frumvörpum allan þann tíma. Gert var ráð fyrir því í fjárlagafrumvarpinu að tekjur fengjust vegna þeirra aðgerða sem hér eru boðaðar þannig að það er algjörlega óskiljanlegt að það hafi tekið ríkisstjórnina allan þennan tíma að koma frá sér þessum frumvörpum. En ég leggst ekki gegn því að þetta komist hér á dagskrá.