141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[11:35]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Það er engin launung að skuldastýring ríkissjóðs Íslands er ekki í faglegum farvegi eins og menn tala um að séu bestu farvegirnir, t.d. hjá OECD. Ísland er í flokki með Danmörku og hefur skuldastýringu ríkissjóðs í seðlabanka eitt ríkja OECD, en þar er Danmörk tekin sem dæmi um hvernig skuldastýringu ríkissjóðs eigi ekki að vera hagað.

Ég hef talað við alla formenn fjárlaganefndar og tvo fjármálaráðherra um það að fagstofnunin Lánasýsla ríkisins verði sett á stofn aftur. Skuldastýring ríkissjóða er fyrst og fremst fag þar sem hver prósenta í vaxtakostnaði skiptir milljörðum eða tugum milljarða yfir líftíma lána og það skiptir því gríðarlega miklu máli að faglega sé haldið utan um þá hluti en ekki pólitískt vegna þess að þær pólitísku sjónhverfingar sem verið hafa í gangi með þessar lántökur og uppgreiðslur lána eru óskiljanlegar. Í rauninni hefði enginn viti borinn maður (Forseti hringir.) sem ber hag skattborgaranna fyrir brjósti farið þessa leið.