141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[13:57]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Það eru fáir þingmenn í þessum sal úr stjórnarandstöðunni jafnviljugir að berja á stjórnarliðum og verja sinn ágæta flokk og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir hefur gert hér í dag og oft áður.

Hv. þingmaður hóf ræðu sína á því að hún væri í vafa um það hver staðan væri, hvort hún væri að batna, hvort hún væri að versna eða hvort hún væri jafnvond og áður. Henni fannst skilaboðin sem við stjórnarliðar sendum hvað þetta varðar og umræðan hér ekki vera skýr.

Það er háttur hv. þingmanns og fleiri reyndar að tala um að viðbáran sé hrunið, eins og það sé einhver afsökun og menn skjóti sér á bak við það. Nú skulum við láta sem svo að það hafi ekki orðið neitt hrun, ímynda okkur að ekkert hrun hafi orðið haustið 2008, það hafi einfaldlega verið hrikalega slæm efnahagsstjórn sem skilaði ríkissjóði með 216 milljarða kr. halla, 600 millj. kr. hallarekstur hvern einasta dag ársins. Einhverri þjóð datt í hug að setja hryðjuverkalög á okkur og við vorum einangruð á alþjóðavettvangi. Við vorum undir sérstakri meðferð hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og nutum liðsinnis vinaþjóða til að koma okkur áfram frá degi til dags. Okkur var skammtaður gjaldeyrir til að kaupa lyf, mat, eldsneyti og nauðsynjavörur inn í landið. Það var ekki hruninu að kenna heldur bara vondri efnahagsstjórn, við skulum ímynda okkur það.

Þarna vorum við árið 2009 með þennan gríðarlega halla. Á yfirstandandi ári verður hallinn um 10% af því sem hann var 2009. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður hann um það bil 1,5% af því sem hann var árið 2009.

Nú spyr ég hv. þingmann, því að þetta eru staðreyndir sem blasa við, burt séð frá ástæðunum, við skulum ekkert tala um það hverjar ástæðurnar eru: Getum við verið sammála um það, ég og hv. þm. Ragnheiður Elín Árnadóttir, sem ég tek mikið mark á í þessum málum, að við séum ekki nálægt þeim stað sem við lögðum upp frá vorið 2009 og að staðan sé betri en hún var þá og jafnvel miklu betri?