141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:04]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla að biðja forseta um að setja mig aftur á mælendaskrá vegna þess að mér duga ekki þessar 2 mínútur heldur þarf ég 20 til að svara þeim spurningum sem hv. þingmaður beinir til mín.

Fyrst út af fjárfestingaráætluninni. Það er ekki ég sem er að fella hana úr gildi. Það sem ég benti á er að ríkisstjórnin og hv. þingmaður hafa ekki meiri trú á þessari fjárfestingaráætlun en svo að settar eru inn tillögur, allar þessar góðu, grænu tillögur, með fyrirvara um að framlegðin geti tekið breytingum við endurskoðun fyrir fjárlög hvers árs.

Já, hv. þingmaður, ef ég fæ einhverju ráðið eftir kosningar og stend frammi fyrir grafalvarlegri stöðu ríkissjóðs, eins og ég er búin að fara yfir hér, og velti fyrir mér hvort ég ætli að setja 280 milljónir í grænkun íslenskra fyrirtækja eða í löggæslumál þá mun ég fella niður fyrrnefnt framlag, svo sannarlega, vegna þess að þetta snýst um forgangsröðun, eins og ég fór í gegnum í allri ræðu minni. Við þurfum að forgangsraða hér og nú vegna þess að við erum með takmörkuð fjárútlát til menntamála, velferðarmála, löggæslu og til að koma hér hjólum atvinnulífsins í gang. Gæluverkefnin verða því miður að bíða, það er bara þannig.

Hver á talan að vera í virðisaukaskattinum? Ég get ekki nefnt töfratölu. Ég er hins vegar algjörlega ósammála þingmanninum um það að mest sé svikið undan skatti þar sem hann er lægstur, alls ekki. (Gripið fram í.) Nei. Mér finnst þetta mjög ósvífið (Gripið fram í: Af hverju …?) af hv. þingmanni því að með þessu finnst mér hann og talsmenn ríkisstjórnarinnar ráðast á eina atvinnugrein í þessum málum og væna ferðaþjónustuaðila um að vera einu greinina þar sem svört atvinnustarfsemi viðgengst, sem er því miður meinbugur á öllu íslensku atvinnulífi. Það er ekki vegna þess að skattar séu hér of lágir, (Forseti hringir.) þvert á móti, virðulegur forseti.

Það var margt annað sem ég átti eftir að svara og ég ítreka beiðni mína um að vera sett aftur á mælendaskrá.