141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:06]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar hv. þingmaður fór yfir framlög út af aðildarumsókn að Evrópusambandinu kviknaði þörf hjá mér að blanda mér aðeins inn í þessa umræðu.

Ég vil þó byrja á því að koma aðeins inn á það sem var rætt áðan varðandi skólana. Jú, það er örugglega rétt að það eru allir skólar fullir af fólki sem er að mennta sig, sem betur fer, en hvað á svo að gera þegar þetta ágæta fólk kemur út úr skólunum? Hvernig sér þingmaðurinn að það verði leyst? Því ég fæ ekki séð að í fjárlagafrumvarpinu sé settur sérstaklega mikill metnaður í það að fjölga störfum eða setja fjármuni í atvinnuskapandi verkefni. Þó að í fjárfestingaráætluninni sé að finna ágætis mál eins og einhverja sjóði, bókmenntasjóði og eitthvað svoleiðis, fæ ég ekki séð að þeir fjölgi endilega störfum eða geti tekið við fólkinu sem kemur út úr skólunum.

Varðandi aðildarumsóknina að Evrópusambandinu held ég að flestum sé nú ljóst að sú umsókn er í andarslitrunum, ef það má orða það þannig, eða við það að syngja sitt síðasta. Þess vegna hljótum við að spyrja hvort það sé eðlilegt að halda áfram á þessari braut og ausa fjármunum inn í þetta vonlausa ferli, sem meira að segja viðsemjendur okkar úti í Evrópu eru farnir að sjá að er algjörlega galið. Það sjáum við og höfum heyrt af samtölum okkar og fundum á erlendri grundu sem og hér heima. Því fyrr sem fleiri góðir þingmenn átta sig á því að þetta er búið því betra.

Ég velti því fyrir mér hvort það sé virkilega þannig að það eigi að halda áfram inn í fyrstu mánuði nýs árs að eyða þessum miklu fjármunum, henda þeim út um gluggann í staðinn fyrir að nota þá í einhver uppbyggileg verkefni hér heima fyrir. Það er þess vegna sem mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún sé sammála mér um það að þessum fjármunum sé illa varið, vegna þeirra upplýsinga sem við og aðrir hafa fengið á ferðum sínum og viðtölum (Forseti hringir.) á erlendri grundu.