141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[14:56]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hrökk nú aðeins við þegar hv. þingmaður talaði um Ríkisútvarpið. Ég er reyndar sammála þingmanninum um að það sé í lagi að kafa betur ofan í rekstur Ríkisútvarpsins og athuga hvort hann sé of umfangsmikill að einhverju leyti. Ég held hins vegar að það megi ekki ganga þannig að stofnuninni að hún geti ekki gegnt því meginhlutverki sem hún hefur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um vangavelturnar um að RÚV eigi að fara af auglýsingamarkaði, því ég fæ ekki betur séð en að ef tekjur eru teknar af stofnuninni þá þurfi að bæta í einhvers staðar annars staðar frá eða skera niður sem því nemur og mér hugnast það ekki alveg. Hitt er að ég kann ekki við að skilja nánast einn aðila eftir á auglýsingamarkaði í fjölmiðlum, sem er alveg augljóst að verður, nái þetta fram að ganga. Þá munu 365 miðlarnir, einkavinir Samfylkingarinnar, sitja einir að auglýsingamarkaði í ljósvakamiðlum og jafnvel í prentmiðlum — það er nú reyndar ekki rétt hjá mér um prentmiðla því Morgunblaðið er enn þá þarna einhvers staðar á sveimi, en alla vega í ljósvakamiðlum.

Ríkisútvarpið auglýsir í dag ekki á vefsvæði sínu, það eru engar auglýsingar þar þannig að ekki er um samkeppni að ræða á þeim vettvangi. Ég veit líka að margir menn sem vinna að markaðsmálum óttast það mjög ef Ríkisútvarpið fer af auglýsingamarkaðnum því það er nú einu sinni þannig að Ríkisútvarpið nær, enn þá í það minnsta, til fleiri aðila en einkaaðilarnir. Það kann vel að vera að það þurfi einhvern veginn að jafna þetta, jafna samkeppnina eða hvernig á að orða það, að RÚV hafi eitthvert forskot, ég kann það ekki alveg.

Mig langar bara að hv. þingmaður lýsi því aðeins fyrir mér hvort það geti talist eðlilegt að um leið og það eigi mögulega að skera niður Ríkisútvarpið að einhverju leyti, þá eigi að veita einum aðila forskot á auglýsingar á markaði.