141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:00]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Í fyrsta lagi þá lít ég þannig á og held að það sé hægt að færa rök fyrir því að samkeppnislegur samanburður við Þýskaland eða önnur Norðurlönd sé ekki réttur, vegna þess hversu fáir aðilar eru á þessum markaði hér á Íslandi. En vissulega er það rétt, auðvitað eru fleiri aðilar en 365 sem ég nefndi hér áðan. Það er vitanlega Skjár 1 og Útvarp Saga eins og hv. þingmaður nefndi, og fleiri.

Ég held hins vegar að það væru mikil mistök upp á aðgang eða dreifingu á auglýsingum að taka Ríkisútvarpið alveg út af markaðnum. Það kann að vera að það sé rétt að takmarka það að einhverju leyti, eins og til dæmis að prófa þessa þýsku leið sem hv. þingmaður nefndi. Ég verð að viðurkenna að ég þekki hana ekki og hef ekki kynnt mér hana, en ég vil halda því til haga að mér hugnast alls ekki að Ríkisútvarpið fari algjörlega af auglýsingamarkaði. Það kann þó að vera að þar þurfi að beita meira aðhaldi.

Það var annað sem hv. þingmaður nefndi í sinni ræðu, hún fór mikið yfir málefni skólanna sem er ósköp eðlilegt þar sem hv. þingmaður var menntamálaráðherra hér um skeið. Ég velti fyrir mér, þegar við heyrum hv. þingmann flytja þessa tölu og færa rök fyrir því að verið sé að ýta á undan sér ákveðnum málum þegar kemur að menntamálum líka, hvort það sé þá enn og aftur þannig að þegar á hólminn er komið þá sé verið að ýta of miklu á undan sér.

Mér sýnist ekki verið að taka á fjármálunum, það er ekki verið að auka tekjurnar. Þetta virðist vera lína sem er gefin, að reyna að fresta eins mörgum vandamálum og hægt er. Ég held hins vegar að það hafi verið mikið og þarft verk að tryggja að sem flestir gætu farið í nám í hruninu til þess að fækka þeim sem voru á atvinnuleysisbótum eða hefðu lent á atvinnuleysisbótum annars. Það var mjög gott verk og við eigum að sjálfsögðu að þakka fyrir það, en við þurfum líka að vera klár á (Forseti hringir.) því hvað við ætlum að gera við allt þetta góða fólk þegar það kemur úr námi.