141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:05]
Horfa

Frsm. meiri hluta fjárln. (Björn Valur Gíslason) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég verð að segja að það er hálfömurlegt að hlusta á fyrrverandi menntamálaráðherra landsins draga kjarkinn úr ungu fólki til að fara í nám vegna þess að ekkert bíður nema svartnætti þegar það kemur út aftur. Það finnst mér ekki vel gert af hv. þm. Þorgerði K. Gunnarsdóttur og þeim sem voru í andsvari áðan og tóku undir með henni hvað þetta varðar.

Mér finnst það ekki vera að tala kjarkinn í þjóðina, hvað þá kjarkinn í unga fólkið, að segja að það taki því varla að setjast í nám vegna þess að ekkert bíður þess nema hyldýpið eitt þegar það kemur út aftur. Má ég biðja þingmenn um að vera á aðeins jákvæðari nótum þó að þeir vilji berja á þessari ríkisstjórn, við getum alveg tekið á því, en látum unga fólkið í friði.

Virðulegur forseti. Það er nú svo að framhaldsskólarnir í landinu voru ansi illa leiknir eftir 18 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins í menntamálaráðuneytinu þar sem hv. þingmaður eyddi síðustu árum sínum þar í stjórnarliðinu, í sjálfu menntamálaráðuneytinu. Nú hefur verið snúið við af þeirri braut. Á fjáraukalögum sem samþykkt voru á þingi núna fyrir nokkrum dögum var samþykkt að setja 140 millj. kr., ef ég man rétt, til reksturs framhaldsskóla og tillaga er um það hjá meiri hluta fjárlaganefndar að leggja 325 millj. kr. til viðbótar til reksturs framhaldsskólanna.

Má ég treysta því að hv. þingmaður muni styðja þá tillögu sem lögð er fram? Mig langar til að spyrja um það. Get ég reitt mig á stuðning hv. þm. Þorgerðar K. Gunnarsdóttur við það að framhaldsskólarnir í landinu fái þá fjármuni sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að þeir fái samkvæmt fjárlagafrumvarpinu upp á 325 millj. kr.?