141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég var í Háskólanum í Reykjavík í gær og hitti þar ungan verkfræðistúdent sem er að klára verkfræðina. Hann var búinn að fara á margar verkfræðistofur, arkitektastofur og byggingarfyrirtæki síðasta hálfa árið til að undirbúa útskrift sína næsta vor. Þar voru engin loforð, engin fyrirheit, það var ekkert hægt að gera af því að ekkert er að gerast á þeim markaði í dag, meðal annars út af ákvörðunarleysi ríkisstjórnarinnar hvort sem það snertir rammaáætlun eða annað varðandi virkjunarkosti í samfélaginu. Þetta ákvörðunarleysi ríkisstjórnarinnar hefur áhrif á möguleika unga fólksins þegar það kemur út úr háskólum. Það skiptir máli að við höldum áfram sérþekkingunni í orkuiðnaði, að við höldum áfram að vera með uppbyggingu á sviði orkuöflunar en setjum ekki lokið á og heyrum síðan í fjölmiðlum frá þingmönnum, samþingmönnum hv. þm. Björns Vals Gíslasonar, sem segja: Það var samkomulag um að ekki mætti gera neitt. Slíkt samkomulag hefur einmitt áhrif á möguleika og tækifæri unga fólksins og þá er bara eins gott að segja hlutina eins og þeir eru.

Ég vil halda fólkinu hér heima, ég vil fá fólkið okkar heim aftur. Og þrátt fyrir okkar 18 ára stjórnartíð í menntamálaráðuneytinu var Ísland eina landið innan OECD sem leið ekki fyrir svonefnda spekileka. Spekilekinn á sér stað núna af því að enga vinnu er að fá fyrir sérfræðinga. Af hverju er hjúkrunarfólkið að fara úr landi enn þann dag í dag? Af hverju?

Ég mun styðja allar tillögur sem stuðla að því að menn taki á brottnámi, taki á iðn- og starfsnámi innan framhaldsskólanna. Ég mun styðja slíkar tillögur og ég geri ráð fyrir að hv. þingmaður muni styðja tillögu mína um að flýta gildistöku laganna fram til næsta árs, til 1. ágúst 2013.