141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[15:10]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Herra forseti. Það er merkilegt að hlusta á hv. þingmann. Hann getur ekki einu sinni í tveggja mínútna andsvari rætt um og klárað umræðuna um menntamál. Í svari mínu og ræðu áðan benti ég á það sem ríkisstjórnin hefði ekki sinnt. Hún sinnti því ekki, sama hvað menn segja, að setja menntamálin í forgang. Ég var ekki sérstaklega að áfellast hæstv. menntamálaráðherra varðandi það heldur það að hún hafi ekki fengið nægjanlegan pólitískan stuðning í það að setja menntun, rannsóknir og skólamál í forgang. (BVG: Rangt.)

Bíddu, hvað gerist svo? Hvað gerist? Eitt fyrsta verkefni ríkisstjórnarinnar er að fresta gildistöku laga sem koma í veg fyrir brottfall, efla iðn- og starfsnám og stytta námstíma til stúdentsprófs, stuðla að því að hér verði hagkvæmt, rekstrarlegt umhverfi fyrir skólana, fyrir sveitarfélögin í landinu og fyrir ríkisvaldið. Þetta stendur bara svart á hvítu. Það er á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem talar núna, hugsanlega út af því að kosningar eru í nánd, um að efla þurfi iðn- og starfsnám. (Gripið fram í.) Það þurfi að koma í veg fyrir brottfallið og það þurfi að fara í það að stytta námstímann. Þetta eru hlutir sem ríkisstjórnin ber ábyrgð á og hún verður að líta í eigin rann.

Ég hef ávallt stutt allar tillögur um — sem eru ekki bara einhverjar popúlistískar hugmyndir — að efla bæði háskólana og rannsóknastofnanirnar. (Gripið fram í.) Þess vegna jók ég á minni tíð, og það má alveg gagnrýna mig fyrir það, ríkisútgjöld varðandi rannsóknarsamning til Háskóla Íslands. Hvað var það fyrsta sem þessi ríkisstjórn gerði? Það var að aftengja þann rannsóknarsamning, rannsóknarsamning sem er lykillinn að því að við getum séð áfram vaxandi birtingu vísindagreina í erlendum (Gripið fram í.) tímaritum, lykillinn að því — já, við munum halda áfram að styðja og stuðla að því að byggja upp háskólarannsóknarumhverfi hvernig sem við gerum það, hvort sem það er með ykkar eða án, það er til hagsbóta fyrir íslenskt samfélag til lengri tíma að efla það svæði (Forseti hringir.) og það svið og það munum við sjálfstæðismenn að sjálfsögðu halda áfram að gera.