141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:14]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna og tek undir hið augljósa að það er mikilvægast að efla atvinnulífið til að skapa vinnu, fá vexti og þar af leiðandi velferð, öðruvísi getur það ekki gengið upp.

Hv. þingmaður kom inn á það í upphafi ræðu sinnar að utanaðkomandi aðilar hefðu skynjað samstöðuna um að hlífa velferðarþjónustunni þvert á flokka enda hefur það svo sem komið í ljós í þessari umræðu og auðvitað verið vitað í mjög langan tíma. Það hefðu orðið fleiri sóknarfæri til að ná mun meiri samstöðu í einstaka málum ef öll mál hefðu ekki alltaf verið lögð fram í miklum ágreiningi.

Hv. þingmaður kom einmitt inn á það hversu mikilvægt það er að skapa ný störf. Við vitum að ríkisstjórnin er búin að vera í stríði við allt atvinnulífið, alveg sama hvort það er ferðaþjónustan, bara það nýjasta, sjávarútvegurinn eða stóriðjan. Því vil ég spyrja hv. þingmann hvort hún geti ekki tekið undir það að við hefðum getað náð meiri árangri hefðum við sýnt meiri samstöðu og tekið meira tillit hvert til sjónarmiða annars.

Síðan fannst mér mjög athyglisverður kafli í ræðu hv. þingmanns þar sem hún ræddi um möguleikana á að breikka atvinnustigið og fara út í nýsköpun og þar fram eftir götunum. Mig langar að heyra viðhorf hv. þingmanns til þess hvort við séum í raun og veru að nýta menntakerfið í þá veru því að reiknilíkanið hjá framhaldsskólunum er þannig að yfirleitt er skorið af starfs- og verknámi, einmitt það fólk sem við þurfum að fá inn í þær greinar sem hv. þingmaður kom inn á í ræðu sinni og töluverð og mikil sóknarfæri eru í. Maður skynjar það mjög fljótt að ekki er gert ráð fyrir því í menntakerfinu. Það er frekar haldið áfram með bóknámið. Ég vil heyra álit hv. þingmanns á þessum hlutum.