141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:21]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta og yfirgripsmikla ræðu þar sem farið var yfir ýmsar hugmyndir.

Ég vil ræða við hana um tvennt. Annars vegar valfrjálst tilvísanakerfi sem hv. þingmaður nefndi. Tilvísanakerfi getur verið prýðishugmynd og er í rauninni praktíseruð alla jafna á landsbyggðinni, ekki af því að menn hafi ákveðið það heldur er það bara þannig. Vandinn er hins vegar sá að við erum með allt of fáa heimilislækna og þeir eru allt of gamlir, ekki það að við ætlum ekki að gera neitt í því heldur er ég bara að vísa til þess að það hefur ekki verið næg endurnýjun. Á höfuðborgarsvæðinu er ástandið ekki ásættanlegt og það er allt of löng bið eftir þjónustu. Ég skil ekki af hverju menn tala með þessum hætti í umræðunni vegna þess að það þarf að gera mjög margt í heilsugæslunni til að bæta hana en það er ekki möguleiki að bæta við verkefnum núna. Mér finnst ekki að við eigum að búa til væntingar þar um.

Hins vegar ætla ég að ræða við hv. þingmann um lífeyrissjóðina, um auknar heimildir þeirra til að fjárfesta. Ég er alveg sammála því sem snýr að ávöxtunarkröfu lífeyrissjóðanna og markmiði um að lækka vexti, en ég hef áhyggjur af því. Hlutverk lífeyrissjóðanna er fyrst og fremst að ávaxta peningana til að fólk geti fengið lífeyri en nú eru lífeyrissjóðirnir, t.d. bara Framtakssjóðurinn þó að hann sé mjög lítið hlutfall af fjármunum lífeyrissjóðanna, eins og fíll í postulínsbúð á okkar litla markaði. Hefur hv. þingmaður ekki áhyggjur af því að ef við stígum frekari skref í þá átt aukum við ójafnræði á milli aðila og þessi risi komi inn á markaðinn og ryðji út litlum fyrirtækjum sem eru að reyna að hasla sér völl við erfiðar aðstæður?