141. löggjafarþing — 43. fundur,  30. nóv. 2012.

fjárlög 2013.

1. mál
[17:28]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Eygló Harðardóttur fyrir ágæta ræðu. Hún kom víða við. Hún nefndi eitt atriði sem var rætt fyrr í dag undir liðnum störf þingsins af hv. þm. Oddnýju Harðardóttur, sem er brottfall í framhaldsskólum. Ég tel þetta vera verulega alvarlegt vandamál vegna þess að menntun er uppbygging á mannauði og mannauður er meira virði fyrir þjóðina en allar auðlindir því að án mannauðs er engin auðlind.

Ég vil spyrja hv. þingmann: Hvar sér hún vandann? Er hann bara í framhaldsskólunum eða getur verið að hann liggi alveg niður í grunnskóla og jafnvel í leikskóla? Þetta eru yfirleitt drengir. Er þörfum þeirra á einhvern hátt verr mætt í grunnskólum, leikskólum og í framhaldsskólum? Er þetta spurningin um fjármagn, þar sem við erum að ræða fjárlagafrumvarp, eða er þetta spurning um lagasetningu og viðhorf?

Í háskólunum er nú yfirgnæfandi fjöldi nemenda konur. Ég tel að sérhvert misrétti eða misskipting sé vannýting á mannauði. Þetta þýðir að ekki fara allir í nám þannig að þjóðin er að vannýta þá karlmenn sem hefðu að öllu jöfnu farið í háskóla. Ég tel þetta vera mjög stórt vandamál fyrir þjóðina. Hún er í rauninni að minnka þann mannauð sem hún gæti haft.

Ég spyr hv. þingmann út af þessu: Er þetta spurning um fjárveitingar? Er þetta spurning um menntun kennara? Er þetta spurning um viðhorf kennara eða uppbyggingu skólakerfisins? Hvar liggur eiginlega vandinn?